Lituð brjóstamjólk

16.11.2008

Sælar!

Mig langar svo að vita hvað það er sem veldur því að brjóstamjólkin verður lituð? Ég er ný hætt með stelpuna mína á brjósti og prófaði að mjólka mig smá því ég fann smá þrýsting en mér fannst mjólkin verða svo furðulega bláleit á litinn. Einnig hef ég heyrt um græna brjóstamjólk hjá konum sem eru farnar að mjólka minna. Og þær virðast ekki tengja þetta við mat sem þær hafa borðað. Hvað veldur þessu?

 

 

Sæl og blessuð!

Algengast er að óvenjulegur litur sjáist á brjóstamjólk eftir að borðað er eitthvað litsterkt eða efnasamsetning fæðu eða efna valdi litamyndun. Þetta getur verið ansi sterkur litur og margir litir koma til greina. Það sem þú ert hins vegar að tala um er litblær sem sést nokkuð oft á mjólk. Sérstaklega er þetta áberandi í upphafi brjóstagjafar og svo enda. Það sem veldur þessu eru efnahvörf í mjólkinni sem eru jú alltaf í gangi en sérlega áberandi á þessum tímum. Þetta er meira áberandi hjá sumum konum en öðrum. Aðalatriðið er að mjólkin er jafngóð og önnur og nýtist barninu fullkomlega.

Bestu kveðjur.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. nóvember 2008.