Spurt og svarað

17. febrúar 2008

Loftgangur

Sæl og takk fyrir góða síðu.

Vandamálið hjá mér er það að ég á 4 vikna gamlan strák og hann er með sífelldan loftgang. Þetta er búið að ganga svona í 2 vikur, og sefur hann lítið, þar sem hann er alltaf að vakna upp til að prumpa, og engist hann við það. Hann grætur og fer í hnút þegar hann prumpar. Hann ropar hjá mér þegar hann er búinn að drekka og ég hef gefið honum smá þurrmjólk með þar sem ég er ekki alltaf með nóg handa honum. Hann er farinn að æla oft og er pirraður. Ég veit ekki hvað ég get gert. Hef prófað að gefa honum miniform dropa, en það er eins og þeir virki ekki á þennan loftgang og þetta minnkar ekkert hjá honum. Hef líka gefið honum sykurvatn og það virkar ekkert alltaf. Hvað get ég gert? Fara með hann til læknis? Hvað gæti þetta mögulega verið?

Takk,takk með von um skjót svör.

Kveðja, ein þreytt og pirruð með fyrsta barn.


Sæl og blessuð.

Það er í raun eðlilegt að börn hafi loftgang og yfirleitt truflar það þau ekki að ráði. Það sem þú ert að lýsa gæti verið barn sem ekki þolir þurrmjólk. Hún hefur oft slæm áhrif á meltingarfæri barna með miklum loftgangi og hægðatregðu. Það gæti líka verið að barnið sé að fá of mikla formjólk á brjósti. Ég ráðlegg þér að hætta þurrmjólkurgjöf í nokkra daga og gefa brjóstið oftar sem því nemur. Mundu að gefa alltaf a.m.k. í 15 mínútur af fyrra brjóstinu áður en þú skiptir og sá tími má jafnvel vera lengri ef það hentar ykkur. Það er líka gamalt og gott ráð að mæla 2 mín eftir að barn byrjar gjöf, taka það þá af og láta ropa áður en það heldur áfram.

Gangi þér sem best.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. febrúar 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.