Spurt og svarað

23. febrúar 2006

Loksins byrjuð að taka brjóstið

Sælar og takk fyrir góða heimasíðu.

Dóttir mín sem er 8 vikna núna hefur aldrei tekið brjóstið almennilega. Þegar hún var 9 daga gömul var hún orðin svo létt að ég þurfti að byrja að gefa henni pela og mjólkaði ég mig fyrir hann og það byrjaði strax að gefa árangur. Nú er hún feit og pattaraleg og ég hef heilmikla mjólk. Ég hef alltaf haldið áfram að ýta að henni brjóstinu og hún hefur alltaf reglulega sogið það en kannski bara einu sinni á dag, stundum með nokkurra daga fresti. Núna allt í einu er hún farin að samþykkja brjóstagjöfina oftar og núna síðast gat ég haft hana á brjósti í heila tvo daga svo byrjaði hún aftur með fyrri stæla. Sýgur ekki brjóstið og verður bara mjög reið og örg og grætur út í eitt. Ég fylltist mjög mikilli bjartsýni og hélt að nú væri þetta bara komið hjá henni og ég gæti hætt að mjólka mig og haft hana bara á brjóstinu. Er þetta algengt? Getið þið gefið mér einhver góð ráð til að koma henni alveg yfir á brjóstið, eða ráðlagt mér eitthvað sem ég má t.d. ekki gera. Nú veit ég að það hlýtur að vera erfitt að gefa ráð án þess að vita meira. Ég er með meiri mjólk en hún þarf og frysti um 180 ml á dag. Hún sefur allar nætur, 8-10 tíma í senn og hefur gert það núna í um 3 vikur. Brjóstin á mér eru mjög full á morgnanna og með stálma, oft lekur mikið og þá er sérlega erfitt fyrir hana að grípa gerivörtuna, ætti það ekki að lagast með tímanum? Hún er almennt mjög vær og góð, nema þegar hún lætur illa á brjóstinu, þetta er í raun mjög skrítið. Hjúkrunarfræðingurinn sem hugsar um okkur segir að hún taki brjóstið rétt og sjúgi rétt, ég fæ ekki sár á vörturnar eða neitt slíkt og við finnum ekki út af hverju hún er svona erfið, það lýtur helst út fyrir að vera óþolinmæði. Ég er orðin frekar þreytt og þarf kannski helst á hvatningu að halda en öll góð ráð eða reynslusögur væru mjög vel þegnar.

Kær kveðja, Lilja.

.................................................................................

Sæl og blessuð Lilja!

Þú hefur staðið þig vel í að halda vel að henni brjóstinu. Og þetta er einmitt góður tími til að skipta barninu alveg yfir á brjóstið aftur. Það skiptir miklu máli að láta hana ekkert þurfa að bíða eftir brjóstagjöfinni. Sum börn hafa litla þolinmæði og þau þarf að grípa á meðan þau eru í svefnrofunum eða fljótt á eftir. Ef hún fer að berjast um og kvarta er betra að hætta strax að reyna, beina athyglinni annað í ca.10 mín. og reyna svo aftur. Þegar hún er svo farin að fara sífellt oftar á brjóst þá lærist þetta fljótt. Það skiptir líka máli að þú sért alltaf nógu afslöppuð í gjöfum þannig að flæðið sé gott. Á móti þarf að koma að gera pelagjöfina meira óspennandi eða erfiðari. Kaupa túttu með minna gati eða gefa á annan hátt.

Ég skil ekki af hverju þú ert að mjólka þig og þú verður að hætta því. Það veldur því að samsetning mjólkurinnar verður ekki alveg eins góð og hún ætti að vera. Það veldur líka þani og leka sem þú ættir að vera að losna við á þessum tíma. Það er líka að valda þér aukinni vinnu sem þú getur sjálfsagt alveg verið án. Passaðu þig að trappa mjaltanir niður en ekki hætta snögglega. Brjóstin verða að fá tækifæri til að aðlagast. En mér finnst þetta hljóma mjög lofandi hjá þér og er viss um að þetta barn verður komið alveg á brjóst eftir 1-3 vikur. Gangi þér bara sem allra best.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. febrúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.