Spurt og svarað

14. janúar 2006

Losunarviðbragð og stingir

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég er með eina tæplega 5 vikna dömu og það gengur mjög vel, ég er með hana a brjósti og hef verið með of mikla mjólk fyrir hana, hef einu sinni þurft að fara upp á deild í Keflavík til að láta tæma annað brjóstið! Núna hins vegar finnst mér eins og þau séu orðin mun mýkri en þau voru og einnig finnst mér eins og þau hafi rýrnað smá!  Er það eðlilegt?  Þýðir það nokkuð minni mjólk? Einnig finn ég oft á dag fyrir losunarviðbragðinu sem sagt stingir í brjóstunum og oftar en ekki kemur leki en þá sérstaklega úr öðru brjóstinu. Er það eðlilegt að ég finni ennþá fyrir stingjum?

Með kærri kveðju.

...............................................................................................

Sæl og blessuð.

Það er talað um eðlilega aðlögun brjósta þegar þau fara að mýkjast upp nokkrum vikum eftir fæðingu. Þannig að það er algjörlega eðlilegt að þú sért farin að finna fyrir því. Yfirleitt eftir 6 viku eru konur hættar að finna fyrir því að mjólk sé í brjóstunum og þótt nokkrir tímar líði milli gjafa á ekki að koma þan í þau. Ef þan kemur í brjóstin þýðir það oftast að allt of langur tími er liðinn frá síðustu brjóstagjöf. Leki hættir yfirleitt um sama leyti. Þegar brjóstin hafa mýkst svona og jafnel rýrnað smá þýðir það ekki minni mjólk heldur þvert á móti betri mjólk og líka það að stjórnunin er meira í höndum barnsins en ekki þín. Brjóstin svara miklu betur örvun frá barninu en þér. Barnið hefur ekkert fyrir því að fá það sem það vill en þú getur átt í basli með að mjólka þig þó ekki sé nema smávegis. Það er mjög misjafnt milli kvenna hversu mikið þær finna fyrir losunarviðbragðinu. Sumar finna það aldrei, sumar finna eitthvað smá á fyrstu 2-3 vikunum, sumar finna þetta fyrstu 6 vikurnar en svo deyr það út og sumar finna nokkuð ákveðið fyrir þessu meira og minna allan brjóstagjafatímann. Þær eru líka til sem þjást af verkjum með þessu og finna jafnvel fyrir ógleði um leið. Þannig að þú sérð að þetta er allur skalinn.

Vona að þú hafir fengið þau svör sem þú vildir.         

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.