Má ?drýgja? brjóstamjólk með því að blanda hana með soðnu vatni?

09.02.2005

Barnið mitt er 8 vikna og er á brjósti. Ég vinn stundum einn klukkutíma í senn tvisvar á dag. Faðirinn annast þá barnið og hann gefur því brjóstamjólk úr pela. Ástæðan fyrir því að hann gefur barninu pela er að það verður stundum óvært og vill mjólk en er ekki endilega mjög svangt því ég gef því vel að drekka áður en ég fer og eftir þörfum þegar ég kem heim. Ég mjólka mig og það er u.þ.b. 45 -60 ml. sem ég næ að mjólka mig í senn. Mín spurning er sú hvort óhætt sé að drýgja mjólkina með soðnu vatni þ.e. blanda hana með soðnu vatni?

.............................................................................


Sæl og blessuð.

Þetta virðist dálítið strembið hjá ykkur að barnið geti ekki verið rólegt í 1 klst. eftir gjöf. Er þá barnið allan sólarhringinn að fá að drekka á innan við 1 klst. fresti. Það er frekar óvenjulegt. Eruð þið búin að velta fyrir ykkur hvort það er söknuður sem veldur óværðinni þegar þú ert farin. Börn geta verið mjög næm á það þegar foreldrar yfirgefa það þótt aðeins um skamman tíma sé að ræða. Ég myndi mæla með að reyna önnur ráð en að bjóða næringu í þennan stutta tíma.
Það er aldrei við hæfi að „drýgja“ mjólk með einu né neinu. Það verður til þess að efnasamsetning og hlutföll brenglast og það er alltaf slæmt. Ef þér finnst koma lítil mjólk við mjaltirnar þá er betra að fara aftur eftir 30 mínútur og fá þá annan skammt í viðbót.

Með bestu óskum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. febrúar 2005.