Má endurhita brjóstamjólk?

18.12.2011

Sælar!

Mig langaði til að vita hvort það mætti hita brjóstamjólk oftar en einu sinnu? Ég er með barn sem hafnaði brjóstinu mjög snemma. Ég reyni eftir fremsta megni að mjólka mig svo það fái a.m.k. eitthvað af öllum góðu efnunum. Ég næ hinsvegar ekki nema um 240-300 ml. (2-2.5 pelum) á dag. Stundum drekkur barnið ekki allan pelann og kannski ekki nema hálfan. Þarf ég að henda þessari mjólk? Ég hef gert það hingað til en finnst það svo sárt þar sem ég hef mjög mikið fyrir þessu og vil að hann fái eins mikla brjóstamjólk og mögulegt er. Tek það fram að ég nota ekki örbylgjuofn til að hita mjólkina heldur pelahitara sem notast við gufu. Með von um svar.

Kveðja.

 


Sæl og blessuð!

Það er yfirleitt ekki mælt með að hita nema einu sinni eða mesta lagi tvisvar. Ég ráðlegg þér hins vegar að hita í smærri skömmtum. Ef þú skiptir skammtinum í 2 eða 3 hluta og hitar bara einn í einu gætirðu sloppið við að henda eins miklu af mjólkinni. Ég er alveg sammála hún er að sjálfsögðu mjög dýrmæt og um að gera að hugsa upp leiðir til að fara vel með hana.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. desember 2011.