Spurt og svarað

16. október 2006

Má hafa barn á brjósti þegar maður er óléttur?

Má hafa barn á brjósti þegar maður er óléttur? Mig grunar að ég sé kannski ólétt og stelpan mín er bara sex mánaða. Ég ætlaði mér að vera með hana á brjósti til eins árs a.m.k. Ég heyrði einhvern tímann  að það geti komið fæðingu af stað ef maður sé að örva geirvörturnar eitthvað.

Með von um svör!


Sæl og blessuð.

Náttúran hefur búið svo um hnútana að það er alveg óhætt að vera með barn á brjósti á meðgöngu. Það verða hins vegar breytingar á mjólkinni á hinum  ýmsu stigum meðgöngunnar bæði í magni og bragði. Sum börn eru mjög næm fyrir þessum breytingum. Þær annað hvort pirra þau eða gera þau afhuga brjóstinu. Þess vegna hætta sum börn á brjósti á meðgöngunni af eigin hvötum. Önnur börn láta sér fátt um finnast og halda bara áfram galvösk. Þau geta þess vegna jafnvel haldið áfram eftir fæðinguna og verið á brjósti með litla systkini sínu. Þannig að þér er alveg óhætt að halda brjóstagjöfinni þinni áfram og sjá til hvernig barnið bregst við. Þetta með örvun geirvartanna á aðeins við lítinn hóp kvenna sem er hætt við fyrirburafæðingum. 

Vona að þér gangi vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. október 2006
.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.