Má vera á LR Henning kúr með barn á brjósti?

08.03.2008

Má vera á LR Henning kúr með barn á brjósti?


Sæl og blessuð.

Þessi kúr miðar eftir því sem ég kemst næst að því að fólk léttist tiltölulega hratt. Það getur verið varasamt þegar barn er á brjósti. Það kemur reyndar ekki fram í bréfinu þínu hvað þú ert með gamalt barn en fyrstu 3 mánuðina lætur maður sér ekki einu sinni detta í hug neitt sem getur líkst megrunarkúr. Eftir það er allt í lagi að fara aðeins að passa fæði sitt ef um offitu er að ræða, en strangir megrunarkúrar eru ekki góðir. Þessi kúr sem þú nefnir getur verið ágætur fyrir suma en flestir lenda sjálfsagt í vandræðum seinna meir eins og eftir aðra kúra. Það er hins vegar samdóma álit flestra mæðra að það eru fáir megrunarkúrar eins kröftugir og einmitt brjóstagjöfin. Reyndu að gefa henni nokkra mánuði til að virka.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. mars 2008.