Magalyf til að auka mjólkurframleiðslu

03.04.2006

Sæl og takk fyrir góðan vef.

Ég las í bandarískri grein að hægt væri að nota magalyf til að auka magn brjóstamjólkur þar sem það væru þekkt aukaáhrif lyfjanna að auka mjólkurmagnið. Þetta eru lyfin Reglan og Domperidone. Er þetta eitthvað gert hérlendis? Ég hef aldrei heyrt á þetta minnst í leit minni að mjólkuraukandi aðgerðum.

Með fyrirfram þökk og kveðju.


Sæl og blessuð.

Jú, það er vel þekkt hér á landi að nota lyf til aukningar mjólkur þegar það á við. Reglan er magalyf sem notað er sérstaklega þegar vantar upp á þau hormón sem stýra mjólkurframleiðslu. Sú staða kemur ekki upp nema hjá fáum konum. Ef þú hefur lesið um Reglan hefur sjálfsagt fylgt með að það geta verið slæmar aukaverkanir af því. Það er kannski ástæðan fyrir því að það er ekki meira notað en raun ber vitni.

Domperidone er hins vegar betra lyf og hefur ekki þekktar aukaverkanir. Það hins vegar fæst ekki hér á landi og það er trúlega lítill áhugi fyrir að fá það hingað. Það er mikið batterí að fá ný lyf samþykkt hér á landi og fáir tilbúnir að leggja það á sig fyrir lyf sem „bara“ gagnast mjólkandi konum. Því miður er þetta sennilega staðan í dag.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. apríl 2006.