Spurt og svarað

09. maí 2005

Mataræði móður og brjóstagjöf

Hæ, hæ!

Ég var að spá í hvort búið væri að sanna hvort einhver matvæli sem móðir borðar geti farið í magann á litlu krílunum þegar þau eru á brjósti eins og t.d laukur, hvítlaukur, kók, kaffi og reyktur matur? Maður heyrir nefnilega alltaf eitthvað nýtt úti á götu eða frá afskiptasömum aðilum. Það sem maður borðar t.d í dag, hvenær blandast það útí mjólkina (ef orða má það þannig)?

Kær kveðja, móðir einnar nokkra mánaða.

........................................................................


Sæl og blessuð móðir.

Það er mjög erfitt að sanna tengsl mataræðis móður við hegðun ungbarna þar sem þú getur aldrei spurt barnið hvernig því líður. Það hefur tekist að sýna fram á tengsl á milli óværðar barna og stórra skammta af koffíni og eiturlyfjum. Það hefur líka sýnt sig að í fjölskyldum með mikil óþol og ofnæmi fyrir hinum ýmsu matartegundum sýna börn viðbrögð við sömu matartegundum. En fyrir fólk svona almennt hefur ekki tekist að sanna að einstök matvæli hafi nokkur áhrif. Maturinn er að sjálfsögðu brotinn niður í sínar grunneiningar áður en hann er tekinn upp í mjólkina (mislangur tími eftir fæðutegundum). Á þeim slóðum er líka valið og hafnað. Það fá ekki öll efni að renna óhindrað inn í hinar mjólkurframleiðandi frumur. Þar er ákveðin sía sem hleypir „völdum” efnum í gegn. Auðvitað geta óheppilega efni sloppið í gegn en það er þá í mjög litlu mæli. Mig grunar stundum að fólk sem er að segja mjólkandi mæðrum til um mataræði sé vísvitandi að gera brjóstagjöfina erfiða og flókna fyrir þeim. Ég hef hins vegar aldrei skilið hvaða hvatir eru þar að baki. Er það af öfund af því þetta gengur svo vel hjá móðurinni? Er það af pirringi af því móðurinni líður greinilega vel og er afslöppuð yfir þessu en það gekk ekki vel hjá einhverjum öðrum? Eða er þetta einhver misskilin góðvild af því fólk veit ekki betur? Eins og ég segi þá bara veit ég það ekki. Ég veit hins vegar að ef barn er óvært einhverja stund þá er miklu auðveldara að reyna að finna ástæðu í mataræðinu og hunsa alla aðra möguleika sem eru mörgum sinnum líklegri.

Með kveðju og von um að þú njótir þess að borða allt sem þig langar í,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi,
9. maí 2005.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.