Mataræði og mjólkurgæði

13.08.2007

Mig langaði að þakka fyrir frábæran vef!

Ég er núna með mitt annað barn á brjósti og gengur mjög vel. Frá fæðingunni og til dagsins í dag (4 mánuðir) hef ég verið eins og hungraður úlfur á 3 tíma fresti frá morgni til kvölds. Ef það líða meira en 4 klst á milli mála fæ ég einkenni blóðsykursfalls. Ég geri mitt besta til að forðast það, og tekst ágætlega til. Aftur á móti hef ég í framhaldi af þessu velt því fyrir mér hvað útskýri þetta. Ég þyngist ekkert, átti 100% eðlilega meðgöngu og þetta var ekki svona í fyrri brjóstagjöfinni sem gekk líka mjög vel.

Og eins hvort að mjólkin mín sé þá ekki mjög næringarrík, þar sem ég hef nánast enga löngun
í sælgæti, gos eða sukk, ég vil bara mat! Drengurinn minn þyngist alla veganna mjög vel, tæplega 500 gr á viku fyrstu 6 vikurnar, eingöngu á brjóstamjólk, og er núna 4 mánaða u.þ.b. 8 kg. Geta börn eingöngu á brjósti verið of þung/feit, því að hann er alls ekki feitur, alveg með smá aukaforða, en hann er líka ofboðslega stæltur, stinnur og öflugur.

Takk aftur fyrir frábæran vef!Sæl og blessuð.

Það er í raun alls ekki óalgengt að konur finni fyrir svona mun á milli brjóstagjafa. Það er kannski ekki einfalt mál að útskýra af hverju þetta er. Aðalatriðið er að bregðast rétt við sem þú hefur greinilega gert. Það er mikilvægt að þú haldir þig við holla matinn því það er ótrúlega auðvelt að gleyma sér og „detta“ í ruslfæðið. Samsetning mjólkurinnar þarf ekki að vera mjög frábrugðin frá því sem var við fyrra barnið en þó er munur. Jú, börn eingöngu á brjósti geta orðið allt of feit. Það hefur hins vegar enginn áhyggjur af því vegna þess að það er góð fita sem þau eiga auðvelt með að losna við þegar þau fara að hreyfa sig og virðist ekki auka líkur þeirra á að verða of feit í framtíðinni. Þú skalt því ekki hafa nokkrar áhyggjur og bara hafa þitt barn á brjósti eins og það vill og borða í kapp við það.

Velfarnaðarkveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. ágúst 2007.