Mataræði, með barn á brjósti

20.12.2005

Sælar!

Ég er með einn lítinn kút sem er tveggja vikna.  Hann er eitthvað að kvarta og með herping í „mallanum“. Mig langar að forvitnast um hvort það séu einhverjar sérstakar fæðutegundir sem ber að forðast og hvort einhverjar fæðutegundir gætu verið ofnæmisvaldandi eins og td. hnetur og jarðaber?

Kveðja, Auður.

...................................................................................................

Sæl og blessuð Auður.

Almenna reglan er sú að allur matur sé í lagi í brjóstagjöf. Hann er brotinn niður í frumeiningar og sem síðan er hleypt inn í mjólkurgerðina í takmörkuðu magni eftir því hvað þar vantar. Það er þó talið hugsanlegt að kúamjólkurprótín komist í einhverju magni „óvart“ í gegn og komist þannig yfir til barnsins. Hjá barninu geta orðið óþols eða ofnæmisviðbrögð gegn þessum prótínum sem geta valdið m.a. magaverkjum. Því er það stundum reynt ef grunur er um magaverki hjá barni að taka allar kúamjólkurafurðir úr fæði móður með barn á brjósti. Þetta er gert í 10-14 daga í það minnsta. Stöku sinnum hefur þetta áhrif til hins betra. Önnur ofnæmisvaldandi efni eru sjaldgæf. Stundum hafa börn foreldra með ofnæmi sama ofnæmi að því er virðist en það er auðvitað mjög ólíklegt að manneskja með ofnæmi fari að borða það sem hún hefur ofnæmi fyrir. Svo þarf að hafa í huga að til að maður fái ofnæmi þarf maður að hafa kynnst ofnæmisvaldinum áður. Þannig að barn sem aldrei hefur fengið neitt annað en brjóstamjólk getur tæplega fengið ofnæmi. Þetta er ein ástæða þess að rík áhersla er lögð á að barn fái alls ekki neitt annað en brjóstamjólk í 6 fyrstu mánuði lífsins. Jafnvel 1 gjöf af þurrmjólk á fæðingardeildinni getur kynnt barnið fyrir ofnæmisvaldi sem síðan kemur ekki fram fyrr en löngu síðar þegar barnið kemst aftur í snertingu við ofnæmisvaldinn.

Vona að mál hafi eitthvað skýrst,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. desember 2005.