Spurt og svarað

13. ágúst 2006

Matur og brjóstagjöf

Ég á stelpu sem er að verða 4 mánaða hún hefur eingöngu verið á brjósti frá fæðingu og þyngist vel en í 2 vikur hefur hún varla viljað brjóstið á daginn.  Hún drekkur smá og nennir svo ekki meir, þar af leiðandi er hún á brjósti á hálf tíma fresti allan daginn.  Það tekur því varla að setja hana út í vagn því hún vaknar eftir 20-30 mínútur og vill fá að drekka.  Ég er að hugsa um að gefa henni smá graut á daginn, hún er ekki hrifin af þurrmjólkinni og ég er búin að reyna að leggjast og gefa henni, slökkva ljósin en ekkert virkar.  Ég á líka aðra litla skvísu sem þarf athygli og finnst ekki gaman að mamma sé alltaf að gefa brjóst.

 
Sæl og blessuð.
Það er nú frekar erfitt að ráða í hvað hefur komið þessari hegðunarbreytingu barnsins af stað en ég get fullvissað þig um að hún "nennir" alveg örugglega að drekka. Þegar börn eru orðin þetta gömul þurfa þau ekki langan tíma til að fylla sig. Þeim geta dugað mjög vel örfáar mínútur. Það ætti hins vegar að endast henni lengur. Þannig að það eina sem ég get ráðlagt þér er að vanda betur til hverrar gjafar. Hafa hana mjög léttklædda í gjöfum til að hún haldi betur einbeitingu. Reyna að dekstra hana með hvaða ráðum sem þér detta í hug til að vera örlítið lengur en síðast og svo við næstu gjöf örlítið lengur en síðast. Það væri fínt ef þú kæmist upp í 12-15 mín.(sumar gjafir). Notaðu endilega brjóstakreistun til að koma meiru ofan í hana. Sjáðu til í 2 daga hvort ástandið lagast ekki,
Og ekki láta þér detta í hug að gefa henni graut eða neitt annað. Það er ekki lausnin. Henni stendur til boða öll sú næring sem hún þarf. Þetta er bara spurning um hvernig þú kemur henni ofan í hana.
Gangi þér sem allra best.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
13.08.2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.