Spurt og svarað

01. desember 2005

Matvendni og brjóstagjöf

Sæl, Katrín Edda og kærar þakkir fyrir góðar leiðbeiningar í gegnum tíðina :)

Nú er ég með tæplega ársgamalt barn sem er enn á brjósti og drekkur hjá mér a.m.k. þrisvar yfir daginn. Barnið þyngist mjög vel, jafnvel of vel(veit ekki hvort það geti gerst) en ég hef fengið smá skot á mig varðandi þessa „endalausu“ brjóstagjöf mína. Getur verið að barnið mitt verði frekar erfitt varðandi matvendni af því ég leyfi því að vera svona lengi á brjósti? Ég finn alveg að barninu finnst best að fá móðurmjólkina þó hún borði ágætlega af venjulegum mat yfir daginn. Á ég að hafa áhyggjur af því að ég sé að ala upp barn sem verður mjög matvant?

Bestu kveðjur, móðir og barn.

..................................................


Sæl og blessuð.

Ánægjulegt að heyra í móður sem gengur svona vel og gott að heyra að ég hef eitthvað geta hjálpað gegnum tíðina. Þú þarft aldrei að hafa áhyggjur af matvendni brjóstabarns. Þau eru einmitt mun betur í stakk búin að borða allar tegundir af mat. Þau hafa vanist því frá fyrstu stundu að fá upp í sig brögð af hinum ýmsu matartegundum sem mæður þeirra hafa borðað og fjölbreytileiki eru þeirra ær og kýr. Það er hins vegar oft mun erfiðara að fá barn sem fengið hefur eingöngu þurrmjólk (sem er alltaf eins á bragðið) til að venjast nýjum bragðtegundum og að reyna eitthvað nýtt. Þetta atriði með brjóstabörn hefur sýnt sig að skila sér til margra ára og gerir það einfaldara að kenna því að borða allt milli himins og jarðar. Mörgum mæðrum finnst mjög ánægjulegt að þessi hluti lífsins skuli vera svona einfaldur. Brjóstabörn hafa líka hæfileika til að stjórna betur sinni fæðuinntekt í tengslum við þarfir fyrir hin einstöku næringarefni. Hafðu það líka í huga að þitt barn er að fá „súpernæringu“ miklu lengur en hin. Ég vona að þetta hjálpi þér eitthvað í baráttunni við fólkið sem getur ekki séð mjólkandi mæður í friði með sína brjóstagjöf. En mig grunar nú reyndar alltaf að einhver leynd öfund búi þar undir.

Bestu kveðjur og haltu áfram eins lengi og þér sýnist,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.