Maxil natursalve í brjóstagjöf

21.01.2012

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!

 Mig langar til að spyrja hvort það sé óhætt að nota kremið Maxil natursalve á sárar geirvörtur. Ég er með 2ja vikna gamalt barn og er búin að vera í rosalegu basli með sárar geirvörtur, opna sprungu og vesen. Ég hef rosalega góða reynslu af þessu kremi á allt mögulegt og langar svo að bera þetta á mig. Ég veit að það má nota þetta á munnangur og á góminn undir gervitennur o.þ.h. en spurning hvort annað gildi um ungabörn. Kannist þið við þetta. Ég held reyndar að partur af þessum sárum stafi af tunguhafti hjá stráksa þannig að þetta er pínu erfitt við að eiga.

Með von um góð svör. Kv. Helga.

 


Sæl og blessuð Helga!

Það er ekki mælt með að bera krem á sárar vörtur nema í þeim sé sýking. Þá þarf kremið að hafa sérstaka eiginleika, vera bakteríudrepandi, sveppadrepandi eða annað sem hentar hverju sinni. Orsökina fyrir sárunum þarf að laga fyrst af öllu. Oftast er það rangt grip eða það getur líka verið tunguhaft. Tunguhaft þarf að klippa ef það er tunguhaftið sem veldur sárunum. Fyrr geta þau ekki lagast. Kremið getur verið gott en það breytir engu ef orsökin er ekki löguð.

Vona að þú fáir þetta í lag sem fyrst.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. janúar 2012.