Spurt og svarað

25. nóvember 2005

Meira og minna á brjósti frá 18-23 á kvöldin

Sæl!

Ég eignaðist mitt annað barn fyrir 8 vikum. Honum líður vel og er vær á daginn og morgnanna og tekur einn u.þ.b. 3 tíma lúr út í vagni. Hins vegar seinnipart dags, nær hann ekki að festa svefn almennilega, en virðist samt vera yfir sig þreyttur (er að sofna í svona 15-30 mín í senn) og í kjölfarið vill hann hanga á brjóstinu á mér til að fullnægja sogþörf sinni, þar sem ég hef ekki enn fengið hann til að taka snuðið (þrátt fyrir að ég hafi mikið reynt). Oft er hann því meira og minna á brjósti frá 18-23 á kvöldin. Brjóstagjöfin hefur gengið mjög vel og ég er með að ég held með nægilega mjólk handa honum, því á milli sopanna skilar hann umfram mjólk upp úr sér. Á næturnar er hann síðan venjulega að drekka á svona 2 tíma fresti. Er eitthvað hægt að gera til að minnka þetta „tott“ hans? Getur verið að mjólkin mín sé ekki nægilega saðsöm handa honum fyrir nóttina ? Ég vil síður venja barnið á að nota mömmu sína í stað snuðs ef hann verður eitthvað pirraður.  Er líka með einn 3 ára sem finnst leitt að mamma sín geti ekkert sinnt honum á þessum tíma dags.

Kveðja, Ágústa.

....................................................................................................

Sæl og blessuð Ágústa.

Þetta hljómar sem nokkuð týpísk hegðun brjóstabarns. Þau eru venjulega að drekka á 2-4 klst. fresti allan sólarhringinn. Yfirleitt er svo eitthvert tímabil sem oft vill lenda á kvöldum eða snemma nætur þegar þau þurfa mjög örar gjafir (á 30-90 mín. fresti). Þetta tímabil reynist mörgum mæðrum erfitt og af einhverjum ástæðum dettur sumum mæðrum í hug að mjólkin sé ekki næg, mjólkin sé ekki nógu góð, barnið sé magaveikt eða óþekkt. Engin af þessum hugmyndum á við. Ekki heldur þín að barninu vanti snuð. Þau fæðast nú ekki með þörf fyrir snuð.

Það sem ég get ráðlagt þér er að reyna að hlú sérstaklega að þessum erfiða tíma. Reyna að hvíla þig fyrir hann og borða, skapa góðar aðstæður fyrir gjafatímana, nota slökun í gjöfinni. Gefa 3 brjóst þ.e.a.s. gefa 1 brjóst vel, skipta yfir á hitt í u.þ.b. 10 mín og skipta svo aftur yfir á það fyrsta í nokkrar mín.

Þú ert örugglega með fullkomna mjólk. Þú þarft bara að finna örlítið aðra aðferð við að gefa hana þannig að betur henti ykkur báðum.

Vona að ráðin gagnist.

Kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. nóvember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.