Meira um A og D vítamín

17.03.2008

Sæl!

Var að lesa fyrirspurn um A og D vítamín þar sem stendur að barn fái nægilegt A og D vítamín ef það er á brjósti og móðirin vel nærð. Nú tek ég inn Omega 3 fitusýrur og lýsi á hverjum degi og hjúkrunarkonan í ungbarnaeftirlitinu vill samt að ég gefi syni mínum A og D dropa. Af hverju er það? Er það þá ekki alveg óþarfi?


Sæl og blessuð.

Það hefur verið viðhöfð sú regla hér á landi lengi að gefa börnum AD dropa til að tryggja að þau fái nægilegt D vítamín. Ástæðan er sennilega sú að við búum í landi þar sem dagsbirta er mjög lítil í marga mánuði samfellt. Til að fá nægilegt D vítamín þarf bæði að fá það úr fæðu og með sólarljósi. Það er nægilegt D vítamín í brjóstamjólkinni ef móðir tekur inn nóg af því en það þarf að passa að barn fái líka sól á húðina. Það er því raun óþarfi að gefa þessa dropa ef annað er í lagi en það þarf þá að hætta að hafa teppi yfir öllum stólum, vögnum og kerrum.

Með bestu kveðjum.  

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. mars 2008.