Spurt og svarað

19. október 2007

Meira um brjóstagjöf og nætursvefn

Sæl!

Var að lesa fyrirspurn þína hér um brjóstagjöf og nætursvefn. Eftir að hafa lesið hana fór ég inn á www.foreldraskoli.is og þar stendur: „Oftast er miðað við að barn geti sleppt öllum næturgjöfum þegar það hefur náð 7-7,5 kílóa þyngd og 5-6 mánaða aldri. Mörg  börn eru hætt að drekka á næturnar fyrr og það er í góðu lagi.“ Skilaboðin er mismunandi eftir sérfræðingum, ég geri mér grein fyrir því að það standi þarna „oftast“ en hvað með barn sem er orðið 10 mánaða og byrjað að borða smá fæðu frá 6 mánaða aldri, fær vel af brjósti á daginn og mikla ummönnun þarf það barn virkilega að drekka líka á nóttunni. Erum við ekki líka að gleyma þeirri staðreynd að börn eru ákveðin stundum þurfum við foreldrar að kenna þeim hvernig hlutunum er háttað því auðvitað reyna þau bara að fá sínu framgengt þau eru dugleg  ætla bara að fá það sem þau vilja þó þau ÞURFI ÞAÐ ekki endilega. Ef að barn er farið að vakna oft þá getur því og eina huggunin er brjóstið til að sofna er það bara allt í lagi?


Sæl og blessuð.

Það eru vissulega skiptar skoðanir varðandi hvernig á að annast börn á næturna eins og um umönnun þeirra á daginn. Þegar um 6 mánaða börn og eldri er að ræða er stundum vinna móður komin í spilið og fleiri þættir. Það er mismikið hvað næturgjafir barna trufla nætursvefn móður og þá oft aðra þætti í lífi hennar. Frá sjónarhóli barnsins litið þá er það ekki að vakna að gamni sínu. Það vaknar af því að það vantar eitthvað. Oftast er það næring. Það gerist gjarnan í kjölfar þess að fast fæði kemur inn að barninu vantar meiri næringu. Það er vegna þess að fasta fæðið er rýrara að næringargildi en brjóstamjólkin. Þá gerist það oft að börn fara að vakna oftar á næturnar til að bæta sér þetta upp. Það ætti auðvitað ekki að neita því um það. Það er hins vegar alveg rétt hjá þér að það kemur að því að kenna þarf barninu, láta það finna hvar mörkin liggja eða ala það upp. Þetta er að sjálfsögðu það sem hver móðir þarf að finna. Bæði hvernig á að framkvæma þetta og hvenær á að byrja. Mæðrum er fullkomlega treystandi til að finna þetta innra með sér. En stundum getur farið illa ef þær eru að gera það sem næsti maður segir henni án tillits til hvar barnið er statt í þroska. Börn þroskast mishratt og það verður alltaf að horfa á hvern einstakling fyrir sig.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.