Spurt og svarað

26. nóvember 2008

Melantónín og brjóstagjöf

Sælar!

Mig langar til að fá álit hjá ykkur varðandi melatonín og brjóstagjöf. Þannig er að ég er með 5 mánaða barn eingöngu á brjósti. Nú hef ég lent í því að eiga mjög erfitt með að sofna á kvöldin og er oftast
andvaka til 1 og 2 á næturnar. Barnið vaknar kl 3 og 6 til að drekka og það er svo kominn dagur hjá okkur milli 7 og 8 þannig að þetta er ekki nægjanlegur svefn fyrir mig. Ég vil ekki taka svefnlyf enda þarf ég að vera "með fullu viti" á nóttunni til að sinna barninu. Áður en ég varð ófrísk tók ég stundum inn melatonin sem ég keypti í apóteki í USA.  Mér skilst að þetta fáist ekki hér á landi. Ég er aðeins búin að leita mér upplýsinga á netinu og finn mjög misvísandi skilaboð eins og um allt sem við kemur lyfjum og brjóstagjöf. Hver er ykkar skoðun á þessu? Ég vil að sjálfsögðu ekki gera neitt sem getur skaðað barnið. En ósofin mamma er afskaplega lítið skemmtileg. Eða eruð þið með betri hugmyndir til að hjálpa mér að sofna?


 

Sæl og blessuð!

Melantónín er hormón sem fer yfir í brjóstamjólk. Það er undir eðlilegum kringumstæðum í mjólk og þar af leiðandi börnum og er eitt af því sem gerir það að verkum að barn lærir að þekkja mun dags og nætur. Það eru ekki til nægar rannsóknir um hvaða áhrif aukagjafir melantóníns geta haft. Melantónín til inntöku er gjarnan í stórum skömmtum og því segir skynsemin manni að fara varlega með svona lyf.

Ég get aðeins ráðlagt þér að reyna að sofa meira að deginum með barninu til að uppfylla svefnþarfir. Það er gamalt og gott ráð sem hefur gagnast mörgum mæðrum.

Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. nóvember 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.