Mexicanahattur

23.05.2009

Hæ og takk fyrir að frábæran vef!

Mig langar að spyrja í sambandi við mexíkanahatta. Ég er með einn mánaðargamlan dreng og þurfti að nota mexíkanahatt af því að hann var með svona yfirbit og náði ekki taki á geirvörtunni hjá mér. Núna erum við eiginlega hætt að nota hann. Gerðist í gær og í dag. Þegar hann drekkur svoleiðis þá finnst mér hann vera að drekka miklu styttra í einu. Þegar við vorum að nota hattinn þá var hann oftast 30-40 mínútur að drekka en núna drekkur hann á brjóstinu ca. 10-20 mínútur.Er það eðlilegt? Ég er eitthvað svo hrædd um að hann sé ekki að fá nóg eftir að við hættum að nota hattinn.

 


Sæl og blessuð!

Til hamingju með að vera hætt að nota hattinn. Það er ekki talin ástæða til að nota hatt við yfirbiti en það er allavega gott að þú ert hætt að nota hann. Svarið við spurningunni er já, það er mjög eðlilegt að brjóstagjafatíminn styttist þegar brjóstið er sogið beint því þá ná börnin miklu betur og fljótar mjólkinni úr brjóstinu. Það verður líka betri og eðlilegri örvun á brjóstin þannig að mjólkurmyndun verður meiri. Þú þarft því einmitt ekki að hafa áhyggjur af að hann fái ekki nóg að drekka. En þú þurftir að hafa áhyggjur af því á meðan þú notaðir hattinn.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. maí 2009.