Spurt og svarað

19. október 2007

Mexíkanahattar

Hæ, hæ!

Mig langar aðeins að forvitnast. Ég á 3ja vikna gamla dóttur og gekk brjóstagjöfin svolítið brösuglega i byrjun. Fyrstu vikuna blæddi og var ég með sár á vörtunum, og var virkilega sárt að gefa stelpunni og var mér farið að kvíða virkilega fyrir hverri gjöf. Þá var mér bent á að nota svona mexíkanahatt, og varð brjóstagjöfin allt önnur og gekk mikið betur. Nú eru sárin samt farin og mér sagt að ég ætti ekki að nota hattana lengur, en málið er að ég á virkilega erfitt með að koma vörtunni uppi munninn á stelpunni. Þar sem að ég er með frekar litlar vörtur, stór brjóst og litla putta, nær ég aldrei að troða þeim almennilega uppi munninn og tekur hún þá alltaf vitlaust.

Er ekki í lagi þá að nota hattana, þar sem að þeir hafa hvorki gert sár, né minnkað framleiðsluna (sem virðist vera algengasta aukaverkunin). Eða eru einhverjar aðrar ástæður fyrir því að ljósmæður og brjóstagjafaráðgjafar mæla ekki með þeim?

Kveðja, Sigrún.


Sæl og blessuð Sigrún.

Það var leiðinlegt að þú lentir í svo erfiðri byrjun. Sár í byrjun brjóstagjafar eru alltaf vegna þess að barn tekur vörturnar vitlaust. Það hefði því átt að laga það en ekki gefa þér hatt. Svo varstu reyndar mjög heppin að sárin löguðust þrátt fyrir hattinn því það gera þau sjaldnast en það er gott að þú ert laus við þau. Það er rétt hjá þér að þá er tími til að hætta með hattinn. En þig vantar greinilega að læra réttu aðferðina við að láta barnið taka vörtuna rétt þannig að best er að leita til einhvers sem getur hjálpað þér við það. Það er mun auðveldara fyrir barn að taka litla vörtu en stóra og stór brjóst og litlir fingur þýðir bara að það þarf að finna aðferð sem passar þér. Það gengur ekki að herma eftir næstu konu við hliðina á þér því líkur eru á að hún sé að nota aðferð sem hentar þér ekki.

Nei, það er ekki sniðugt að nota hatt áfram. Hann getur valdið þér sárum seinna og svo er mjög líklegt að hann valdi minnkandi framleiðslu seinna meir. Það er bara í algjörum undantekningartilfellum sem mjólkurframleiðsla helst góð lengi með hattnotkun. Þú hefur tíma fyrir þér því við erum að venja börn af hattnotkun fram eftir öllum aldri.

Gangi þér vel.        

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.