Spurt og svarað

05. júlí 2006

Mexíkanahattar

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég er með eina 6 vikna sem er alfarið á brjósti. Brjóstagjöfin gengur mjög vel og hún hefur verið að þyngjast frá 280-400gr á milli vikna.  Ég nota mexíkanahatt við gjöfina og langar að vita hvort það sé einhver tölfræði á bakvið það að brjóstamjólkin minnki við notkun hans og hvernig er sú tölfræði fengin. Mig langar mjög mikið að vita hvernig þetta er mælt. Auk þess langar mig að spyrja hvenær sé í lagi að byrja að mjólka sig?


Sæl og blessuð!

Mexíkanahattur hefur verið mjög umdeilt „hjálpartæki“ alveg frá því hann kom á markað. Núna er hann stundum kallaður helsti óvinur brjóstagjafaráðgjafa því þeir lenda náttúrlega í að reyna að laga það sem fer úrskeiðis við notkun hans. Að sjálfsögðu er afar erfitt að mæla með tölum afleiðingar notkunar á þessum höttum en það hafa þó verið gerðar rannsóknir erlendis sem benda allar í sömu átt, þ.e. neikvæð áhrif á brjóstagjöf. Tölurnar eru þó mismunandi eftir því hvaða gerð hatta var um að ræða og hvaða afleiðingar var verið að kanna t.d. mjólkurminnkun, styttri brjóstagjöf, sáramyndun o.fl. Ein rannsókn sýndi 22-58% minnkun á mjólkurflutningi. Þá var reyndar um að ræða þykka gerð mexíkanahatta.

En það er enginn tilbúinn að segja að hattar séu alslæmir. Í mjög fáum undantekningartilfellum er jafnvel ég tilbúin að játa að þeir hjálpa. Þau tilfelli eru konur með mjög mikið inndregnar vörtur og stífan vef í vörtubaug annars vegar og hins vegar konur með fyrirburði sem ekki ná tökum á að sjúga almennilega brjóst í byrjun (32-36 vikur). Í flestum öðrum tilfellum finnst mér hattnotkun vera mistök sem að oft er erfitt að leiðrétta. Eins og einn frægur brjóstagjafafrömuður sagði: „Sú staðreynd að sumar konur hafi haft gagn af hatti eru engin rök til að mæla með honum“. Það er helst mælt með hattnotkun ef illa gengur að fá barn til að grípa geirvörtu eða ef um sárar vörtur er að ræða. Í fyrra tilfellinu er oft um ótímabæra uppgjöf að ræða og í seinna tilfellinu þá er næstum ekki hægt að láta sér detta verra ráð í hug. Hér á landi er um að ræða allt of mikla notkun hatta eins og víðast annars staðar. Það ætti að ráðleggja öllum konum sem fara að nota hatt að nota hann eins stuttan tíma og þær mögulega komast af með. Nokkur skipti ef það dugar, nokkra daga, fáar vikur og helst ekki í marga mánuði. Konur sem nota hatt til langs tíma þurfa að láta fylgjast sérstaklega með þyngdaraukningu barna sinna og fá aukavigtanir þegar ungbarnaeftirlitið fer að fækka vigtunum. Þeim er líka oft bent á samkvæmt einhverjum heimildum að mjólka sig aukalega til að reyna að halda mjólkurframleiðslunni uppi. Eins og þú sérð er þessu bréfi ekki endilega beint til þín persónulega heldur er meira almenn umfjöllun um hattnotkun, ætluð þeim sem vilja fræðast um þá. Ég vona samt að þú hafir fengið þínar upplýsingar.

Varðandi seinni spurninguna þína þá er það líka komið fram. Þér er óhætt að byrja að mjólka þig og frekar mælt með því. En endilega reyndu að losna við hattinn ef þú getur.

Bestu brjóstagjafakveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. júlí 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.