Mexíkanahattur og handmjólkun

08.05.2006

Halló! Frábær vefur verð ég að segja, búin að fá svör nánast öllum mínum spurningum.

Mig langaði svo að athuga hvort að þið gætuð svarað eftirfarandi spurningum:

  • Má ég ekki handpumpa mjólkina hjá mér ef brjóstin eru alveg að springa og það gjörsamlega lekur og lekur úr þeim?
  • Svo vill skvísan mín ekki brjóstið nema með mexíkanahatinn. Hún tók aðeins annað brjóstið í byrjun og notaði þá hattinn á hitt en svo vildi hún ekki brjóstin nema með hattinum. Hún þyngist og allt virðist ganga vel. Hef heyrt um konur sem hafa notað hattinn alla brjóstagjöfina og allt gengið eins og í sögu. Af hverju er ekki í lagi að nota hann?

Tek það fram að skvísan mín er rúmlega viku gömul :)

Kveðja, mamman sem lekur og lekur (ekki gaman).


Sæl og blessuð!

Nei. Það er ekki sniðugt að fara að pumpa brjóstin svona snemma í brjóstagjöfinni. Þau (brjóstin) þurfa að læra að aðlagast þörfum barnsins á þessum tíma. Ef þau eru pumpuð þá prógrammera þau sig fyrir meiri mjólkurframleiðslu en þörf er á og þú getur lent í vandræðum með offramleiðslu. Nú er rétti tíminn til að láta þau framleiða bara það sem barnið tekur. Ef að lekur mikið er mikilvægt að stoppa þann leka með dyrabjölluaðferðinni svo brjóstin „haldi“ ekki að það sé mjólk sem barnið tekur. Þegar byrjar að leka þá ýtirðu beint framan á geirvörtuna með fingurgómnum eins og þú sért að ýta á dyrabjöllu. Þú heldur á meðan þú telur upp á 15-20 og sleppir svo. Þá er lekinn hættur. Fyrst um sinn hættir hann kannski bara stutta stund en því oftar sem þú notar aðferðina því betur virkar hún.

Varðandi mexícanahattinn þá ráðlegg ég þér eindregið til að fá hjálp til að hætta með hann. Ég veit að það eru til konur sem geta notað hann allan brjóstagjafatímann en þær eru afar fáar. Í langflestum tilfellum leiðir notkun hans til vandræða eins og stífla og bólga þótt algengast sé að hún leiði til minnkaðrar mjólkurframleiðslu. Þessi vandamál koma ekki endilega fram strax heldur geta liðið dagar eða vikur þar til vandræðin byrja og þá getur oft verið erfitt að lagfæra ástandið.

Með ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. maí 2006.