Spurt og svarað

11. mars 2014

Mexíkanhattur verslanir og fl.

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég er með nokkrar spurningar sem væri gaman að fá svör við. Ég á 6 vikna gamlan son sem er eingöngu á brjósti en ég nota mexíkanhatt því í fæðinguni fékk ég hita og hann fæddist með hita og það gekk ekki að setja hann á brjóst því hann sofnaði alltaf. Þannig þurfti hannaað fá matinn úr sprautu fyrst. Þegar hann var farinn að vera meira vakandi var reynt við brjóstið en hann náði engu taki. Þannig að ég gafst upp og fór í mexíkanhattinn og finnst hann frábær. Ég prófaði samt þegar hann var um 4vikna að taka hattinn en ekkert gekk svo ég er enn með hann á hattinum og gengur rosalega vel. Og hann þyngist mjög vel. En ég sá hér á síðunni að það er mælt með því að konur mjólki sig sem nota hattinn, en afhverju? Og hvernig á ég þá að gefa honum það? Hversu mikið? Á ég að mjólka mig á hverjum degi? Í hvaða tilfelli gef ég honum það? Hversu mikið á maður að mjólka sig? Nokkrar spurningar sem væri fínt að fá svar við. En annað sem mig langaði að spyrja að. Í gærkvöldi var bara 1 og hálfur tími síðan hann drakk en hann var orðin svangur en málið var að það var ekkert komið mikið í brjóstin svo hann fékk ekki mikið. Svo 1 og hálfum tíma seinna var hann aftur svangur en drakk bara öðru megin. Málið er að mér finnnst eins og mjólkin sé að minnka allt í einu.Vanalega þegar ég vakna á nóttinni þá finnst mér brjóstin vera springa en í nótt fannst mér þau bara tóm. Hvað get ég gert til að auka framleiðsluna? Er hann að fá nòg ef mér finnst brjóstin bara tóm. Mig langar nefnilega að hafa hann allavegana fyrstu 6 mánuðina á brjósti eins og er talað um. En svo að allt öðru. Ég bý úti á landi og fer í borgina í byrjun mars. Þá verður strákurinn orðin 2 mánaða.Ég veit að hann má ekki fara í Kringluna og Smáralind. En í minni búðir? Elko? Hagkaup? Ikea? Eða ef maður færi út að borða, má hann fara á veitingastaði? Á ég kannski að fá pössun? Sem er samt leiðinlegt því þá er maður bara stressaður og þarf að drífa sig. Það er erfitt í borginni, svo langt á milli staða. Vona svo innilega að ég fái svör við öllum þessum spurningum. Enn og aftur takk æðislega fyrir frábæran vef og fyrirfram þökk fyrir svörin!
Kv. Ein stressuð mamma.Sæl og blessuð ein stressuð mamma!
Það er af hinu góða að spyrja ef maður er ekki viss. Það þarf ekki að vera merki um neitt stress. Spurningum um hattnotkun má svara svona. Aðeins þeim sem eru með mikla framleiðslu og eiga létt með losun tekst að nota hatt til langframa. Hjá flestum leiðir hann á fyrstu vikunum til minnkandi framleiðslu vegna of lítillar húðsnertingar. Þess vegna er mælt með auka mjólkun til að reyna að halda uppi nægri framleiðslu. Flestum dugar að mjalta sig einu sinni á sólarhring í 10-15 mín. Og passa að mjalta bæði brjóst. Magnið skiptir ekki meginmáli en gæti verið á bilinu 50-100 ml. Mjólkin sem kemur er oft geymd til notkunar þegar skreppa þarf frá. Aðrar konur þurfa að mjalta sig oftar og meira.

Mjólkurframleiðsluna merkirðu best á barninu. Mjúk brjóst segja ekki til um framleiðslu. Nokkrum vikum eftir fæðingu á fyllingartilfinningin að hverfa og þau verða meira eins og fyrir óléttu. Það þýðir að þau hafa aðlagast framleiðslunni. Ég mæli með að þú reynir áfram annað slagið að losa ig við hattinn.

Varðandi ferðina í höfuðstaðinn er skynsamlegt að forðast fjölmennustu staðina og þar sem troðningur en endilega ekki skilja barnið við þig. Og það er allt í lagi að fara á litla veitingastaði.

Með bestu kveðju og von um gott gengi
Katrín Edda magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. mars 2014.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.