Spurt og svarað

31. ágúst 2005

Með stór og mjúk brjóst en þarf að nota ?mexíkanahatt?

Sælar verið þið enn og aftur! 

Hef leitað til ykkar á meðgöngunni og fengið góð svör og held nú áfram svaraleitinni, komin með lítinn dreng sem ekki virðist ætla að taka brjóstið nógu vel. Ég er með stór og mjúk brjóst og með stórt geirvörtusvæði þannig að ég þarf að toga geirvörtuna svolítið vel fram og hálfgert troða upp í barnið svo hann nái taki.  Ef hann á annað borð nær taki virðist hann ekki geta sogið mikið lengur en rétt upphafssog og svo missir hann vörtuna út úr sér. Á fæðingardeildinni voru mér kennd ýmis „trix“ til að fá hann til að taka brjóstið.  Á endanum fór ég heim með þær aðfarir við brjóstagjöf að ég mjólkaði mig örlítið í pela, stakk pelanum í barnið svo hann byrjaði að sjúga og skellti honum svo án þess að hann fattaði það yfir á siliconhjálpartúttu sem kallast víst mexíkanahattur á brjóstið á mér. Hann virðist ekki fatta án byrjunarhjálpar hvað eigi að gera við silicontúttuna uppí sér svo hann þarf smá örvun í byrjun gjafar.  Eftir nokkra daga af þessu, miklu stressi og ég nánast var farin að hætta að geta mjólkað í pelann prófuðum við að setja smá mjólkurslettu í 2ml plastsprautu sem við sprautuðum á silicontúttuna meðan hann var með hana uppí sér. Ég hef verið hvött til að halda áfram að prófa að gefa honum brjóstið svona til að gefa honum tækifæri til að átta sig og kannski sogið þroskist og hann nái að halda vörtunni uppí sér hjálparlaust.  En svo enda ég alltaf á að setja á mig túttuna áður en hann gefst upp og verður pirraður. Vandræðin við það er að þá sýgur hann slatta af formjólk uppí sig og það virðist pirra hann í maganum. Hvað ráðleggið þið mér?  Er hætta á að hann verði háður silicontúttunni? Mig dauðlangar til að geta gefið honum brjóst án „hjálpartækja“s.s. plasttúttna, sprauta og pela.  Held að stressið við að berjast við barnið í fjölda mínútna fyrir gjöf (sem er oftast ekki nema 10-15 mínútur þegar sogið hefst fyrir alvöru) eigi eftir að gera mig trekkta á sálinni.

.......................................................................

Sæl og blessuð.

Það er ánægjulegt að þú skulir hafa getað notað síðuna svona vel og vonandi að við getum hjálpað þér frekar. Ég er alveg sammála þér að best væri að þú gætir sleppt öllum hjálpartækjum. Yfirleitt þykja stór og mjúk brjóst mjög þægileg til að leggja börn á en það þarf vissulega að læra góða tækni við það. Það þarf góða staðsetningu á barninu, öfuga kjöltustöðu, rétta mótun á brjósti og að leggja vörtu inn í munninn með veltiaðferð. Það er einnig mjög mikilvægt að brjóstið sé stutt á réttan hátt í allri gjöfinni. Ef þú hefur ekki lært allt þetta (bréfið bendir ekki alveg til þess) þá þarftu að finna hið fyrsta aðila sem getur kennt þér það. Ég held að stressið við gjafirnar sé nú þegar búið að fara illa með sálina þína og það getur haldið áfram að versna. Og já, það er mikil hætta á að hann verði fljótt háður mexíkanahattinum og notkun hans verður líklega fljótlega til þess að mjólkin hjá þér minnkar og fleiri vandamál verða til. Þannig að ég ráðlegg þér að fá hjálp og fá hana fljótt.

Með von um að málin lagist sem fyrst,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. ágúst 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.