Spurt og svarað

09. janúar 2007

Mígreni og brjóstagjöf

Málið er að dóttir mín er þriggja og hálfs mánaða og er á brjósti og það gengur vel. Fyrstu 6 vikurnar fékk hún þurrmjólkurábót á kvöldin en svo náðum við tökum á brjóstagjöfinni og hún hefur gengið vel fram að þessu. En málið er að stundum þarf hún að fá þurrmjólk því ég er mjög slæm af mígreni og hef þurft að taka mígrenilyf og þá má hún ekki drekka hjá mér í sólarhring á eftir.  Ég hef ekki náð að mjólka mig nægilega mikið til að eiga fyrir hana þegar ég fæ þessi köst svo við höfum gripið í SMA þurrmjólkina og hún tekur alveg pelann og mótmælir ekkert.  Þetta hefur verið frekar ört núna undanfarið, ég hef fengið mörg köst núna og hefur hún verið mikið að fá þurrmjólkina en ég mjólka mig þá á meðan og næ að halda mjólkinni og henni finnst voða gott þegar hún fær brjóstið sitt aftur, en það sem ég er að spá í er hvort þetta sé ekki vont fyrir hana, að vera að skipta svona á milli þurrmjólkur og brjóstamjólkur?  Ég hef í rauninni ekkert annað val, ég vill frekar gefa henni þurrmjólk í sólarhring heldur en að vera frá í þrjá sólarhringa og geta ekki sinnt henni og hinu barninu mínu. Er eitthvað annað sem þið getið ráðlagt mér að gera, eða er þetta bara allt í góðu? Svo eitt annað, hvenær þurfa börn ekki lengur að drekka á nóttunni?
Hvenær er í lagi að gefa bara vatn á nóttunni?

Með kveðju.


Sæl og blessuð.

Það sem er best fyrir þig að gera er að gefa brjóstið í köstunum. Ég veit að það er kannski ekkert gott en ef þú getur mjólkað þig í köstunum þá geturðu og er mun betra að gefa brjóstið beint. Það eru engin mígrenilyf bönnuð í brjóstagjöf og þó þau séu sterk þá er þetta alltaf skammur tími sem þau eru tekin og áhrif á barnið því óveruleg. Það fer mun betur með „kerfið“ í þér að gefa brjóstið beint og þú losnar við álagið sem mjaltirnar valda. Það gæti jafnvel orðið til þess að köstunum fækki. Það hefur annars alltaf einhver áhrif á barnið að vera að skipta milli brjóstamjólkur og þurrmjólkur en það er nokkuð sem þau geta aðlagast alveg þokkalega í flestum tilfellum.

Varðandi það hvenær börn hætta að þurfa næturgjafir þá er það voðalega einstaklingsbundið. Flest heilbrigð börn þurfa a.m.k. 1 næturgjöf alla fyrstu mánuðina en alls ekki öll. Eftir 6 mánaða aldurinn er alveg óhætt að bjóða þeim vatn á nóttunni en þá yfirleit flyst næturgjöfin(gjafirnar) yfir á dagtímann.     

Vona að allt fari að ganga betur. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. janúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.