Spurt og svarað

26. október 2007

Mikil mjólk

Ég er með einn 4 mánaða gutta sem var yfir 9 kg við síðustu vigtun. Hann er vær og góður og sefur vel á nóttunni.  Ég er búin að vera með mjög mikla mjólk og er lausmjólka.  Þegar ég heyri önnur litil börn gráta og fæ ég oft svo mikla stálma að ég er tvo daga að vinna þá niður. Gaurinn var nokkuð óvær í kring um 2 mánaðar aldurinn og ljósmóðirin benti mér á að hann væri kannski að fá of mikið og ég ætti að taka hann af brjósti þegar ég vissi að hann væri búinn að fá nóg.  Hann varð miklu værari eftir.  Ég hef verið að gefa honum úr öðru brjóstinu þegar hann er svangur en gefið úr hinu einu sinni eða tvisvar á sólarhring til að halda rennslinu niðri.  Hann drekkur á tveggja tíma fresti þegar hann er vakandi á daginn. Síðasta mánuðinn hefur hann verið að æla mikið og ég held að það sé vegna þess að ég er aftur að gefa honum of mikið. Getið þið gefið mér einhverjar ráðleggingar hvernið ég á að haga brjóstagjöfinni til að fá jafnvægi á framboð og eftirspurn?Sæl og blessuð.

Já, þetta hljómar svolítið eins og það sé heldur of mikil framleiðsla eða kannski frekar ekki góð hlutföll mjólkur. Ég kem ekki auga á vandamálið svo kannski vantar eitthvað inn í upplýsingarnar. Kannski lekur mjólk úr brjóstum og það þarf að ná stjórn á honum, kannski er verið að mjólka úr brjóstunum og þannig oförva þau eða kannski þarf að breyta gjafamynstri barnsins. Það er því miður erfitt að átta sig á þessu en ég ráðlegg þér eindregið að fá aðstoð við það því þetta er greinilega að valda ykkur vandræðum. Almenna reglan er jú að gefa barninu þar til það sleppir brjóstinu. Það á ekki að takmarka tíma barnsins við brjóstið. Vona að þetta takist.   

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.