Spurt og svarað

10. maí 2005

Mikil mjólk, er að reyna að draga úr brjóstagjöf

Góðan dag!

Ég er með eina sem er að verða níu mánaða og ég er að reyna að minnka brjóstagjafirnar.  Það er ekkert mál af hennar hálfu því hún hefur engan áhuga á þessu á daginn en svo á kvöldin og á nóttinni er hún vitlaus í þetta!  Það væri nú í fínu lagi ef hún væri ekki að vakna endalaust til að fá sér sjúss.  En vandamálið er að mjólkin minnkar ekkert hjá mér!!  Í eftirmiðdaginn er ég gjörsamlega að springa!  Og þá meina ég að springa!Ég get varla haldið  á henni eftir matinn og sett hana í bað og klætt í náttföt því mér er svo illt í brjóstunum, en svo lagast allt þegar hún drekkur fyrir svefninn.  Er eitthvað sem ég get gert til að láta mjólkina minnka?

Kveðja, Fönsa.

.....................................................................

Sæl og blessuð Fönsa!

Það er svolítið erfitt að gefa þér gott ráð. Þú ert í raun að framleiða nákvæmlega passlega mikla mjólk fyrir barnið þitt. Það sem gerir málið erfitt er að allar gjafirnar raðast á annan helming sólarhringsins og brjóstin kunna ekki aðra leið að bregðast við því en þessa. Þegar líður að tímanum þegar aðalsogtími barnsins hefst verða þau að vera tilbúin með mjög mikla framleiðslu og þá hlýturðu að verða mjög þanin. Það eina sem ég get ráðlagt þér er að reyna að dreifa gjöfunum meira yfir sólarhringinn.           

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.