Spurt og svarað

09. mars 2008

Mikill kvíði vegna brjóstagjafar

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég er að eiga mitt fyrsta barn og gengur allt bara mjög vel á meðgöngunni. Er komin um 33 vikur. Vandamálið er að ég er alveg að fara á taugum fyrir brjóstagjöfinni. Er kvíðin að eðlisfari og hef reynt að vera svo jákvæð og það hefur gengið svona framan af en núna virðast allir hafa þörf fyrir að „ráðleggja“ manni varðandi brjóstagjöfina. Og núna er þetta orðið þannig að ég er alveg orðin rugluð. Klykkti svo alveg út þegar náin aðstandandi tilkynnti mér að þetta væri ekkert mál og engin kona með móðureðlið í lagi ætti að eiga í vandræðum með brjóstagjöf.

Í kringum mig er mikið af konum sem hafa af ýmsum ástæðum ekki getað mjólkað. Flestar þeirra eru þó á þeim aldri að þá var sú regla í gangi að leggja barnið ekki oftar en á 4 tíma fresti á brjóstið, þannig það gæti nú útskýrt margt, ekki satt?
En spurningar mínar er þessar:

  1. Er hægt að undirbúa geirvörtur, t.d.með því að bera á þær Lansinoh brjóstakrem í nokkrar vikur fyrir fæðingu.
  2. Á maður að toga og klípa í þær mánuði áður en barnið er væntanlegt til að undirbúa þær?
  3. Er gott að setja hita á brjóstin fyrir hverja gjöf, alltaf þá eða bara ef vandamál er til staðar.
  4. mikið lesefni er í boði og ekki ber þeim öllum saman. Mælið þið með einhverju sérstöku í tengslum við brjóstagjöfina?
  5. Á hvaða tímum eftir fæðingu barns hefur maður aðgang að brjóstagjafaráðgjafa? Er þetta  bara einu sinni í viku eða getur maður hringt niður á LSH og fengið aðstoð ef allt fer í „pikkless“?

Vona innilega að þið gefið ykkur tíma í að svara þessum spurningum.

Með bestu kveðju og takk fyrir vefinn, Kvíðin fyrir brjóstagjöf.


Sæl og blessuð „Kvíðin fyrir brjóstagjöf“.

Það er nú ekki þörf á að vera kvíðin fyrir brjóstagjöfinni. Hún er ósköp eðlilegt framhald af fæðingunni. Auðvitað er hún verkefni. Hún er verkefnið sem tekur við þegar verkefnið fæðing er búið. Hún er kannski erfiðust þeim sem halda að hún sé ekkert verkefni, að hún sé bara eitthvað sem er sjálfkrafa og þurfi ekkert að hugsa um. Þannig að þú ert komin yfir þann hjalla og það er mikilvægast. Síðan verður þetta bara samvinna milli þín og barnsins þíns. Mjög líklega lætur barnið þig alveg vita hvernig það vill hafa þetta og það er um að gera að svara því. Ekki vera fyrirfram búin að ákveða hvernig ÞÚ ætlir að hafa þetta. 

Jú, það er rétt hjá þér að stór hluti brjóstagjafa fór úrskeiðis þegar verið var að leggja börn á brjóst eftir fyrirfram ákveðnu prógrammi og yfirleitt allt of sjaldan.

Svar við spurningum:
  1. Nei, það er ekki hægt að undirbúa vörtur með því að bera á þær krem.
  2. Nei, maður á ekki að toga eða klípa í vörturnar.
  3. Nei, maður á ekki að setja hita á brjóstin. Það er stundum gert ef vandamál koma upp á.
  4. Það er ekki til neitt sérstaklega gott lesefni á íslensku um brjóstagjöf. Það eru til margar góðar bækur á ensku t.d. „The womanly art of breastfeeding“.
  5. Undir eðlilegum kringumstæðum er aðgengi að brjóstagjafaráðgjafa alla virka daga frá 8-16. Þá er hægt að hringja í 543-3292 fá ráð í gegnum síma eða panta tíma. Utan þess tíma er hægt að ná í ljósmóður eða hjúkrunarfræðing á sængurkvennadeild eða Hreiðri og fá hjálp.

Vona að þetta hjálpi.            

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. mars 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.