Minni áhugi á brjóstinu

27.12.2005

Halló!

Mig langar að fá smá ráðlegginar varðandi brjóstagjöfina hjá 10 mánaða guttanum mínum. Hann er búinn að vera á brjósti frá því að hann fæddist og allt gengið eins og í sögu. Síðan hann byrjaði að borða vel og reglulega (um 8 mánaða) hef ég verið að gefa honum brjóst á kvöldin og morgnana. Undanfarið hefur áhugi hans á brjóstagjöfinni hins vegar minnkað rosalega og hann vill ekki drekka á kvöldin, það er helst snemma morguns sem hann hefur áhuga á að súpa, en þó alls ekki mikinn og hann drekkur aldrei lengur en í hálfa mínútu í mesta lagi. Hvað veldur þessu? Á ég að hætta með hann á brjósti? Ég var búin að ákveða að hafa hann a.m.k. til eins árs aldurs en mér sýnist ekki ætla að verða svo. Fer framleiðslan ekki að stöðvast hjá mér ef þetta heldur svona áfram (þetta hefur þegar staðið yfir í tæpan mánuð, þ.e. svona lítill áhugi). Vona að þú hafir útskýringar og ráð fyrir mig.

Bestu kveðjur og þakkir fyrir góðan vef, Karen.

......................................................................................................... 


Sæl og blessuð Karen.

Þetta er í raun ekki svo óalgengur tími fyrir sum börn að venja sig af brjósti. Sum hreinlega hætta algerlega af eigin hvötum á þessum aldri. Það er svo sem engin sérstök vituð ástæða. Ég ráðlegg þér að halda áfram að bjóða brjóstið kvölds og morgna í hvern þann tíma sem barnið er tilbúið að grípa eitthvað í það. Mjólkurframleiðslan aðlagast eftirspurninni. Hún dalar væntanlega eitthvað en hún hættir ekki svo lengi sem barnið sýgur eitthvað. Þetta getur líka verið tímabundið áhugaleysi og áhuginn síðan aukist aftur skyndilega án þess að þú finnir nokkra skýringu á því.

Með von um að þið verðið bæði sátt við niðurstöðuna,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2005.