Spurt og svarað

12. september 2006

Minni framleiðsla í öðru brjóstinu

Sælar!

Ég er með dreng sem er tæplega 2 vikna gamall. Hann fæddist holgóma og getur því ekki tekið brjóst því hann hefur ekki sogkraftinn. Ég hef því verið að mjólka mig og hefur það gengið bara alveg ágætlega.  Hægra brjóstið heldur mun fastar í mjólkina en vinstra og kemur helmingi minna úr því.
Get ég gert eitthvað til að jafna þetta út hjá mér eða er þetta bara stundum svona hjá konum?

Kveðja, Víkingsmamma.


Sæl og blessuð Víkingsmamma.

Það er mjög glæsilegt að þú mjólkir barninu þínu svona vel við þessar erfiðu aðstæður. Ég verð þó að benda á að orðið „mismjólka“ er ekki til í merkingunni að það sé mismikil mjólk í brjóstum. Orðið mismjaltir er til en það þýðir bara óreglulegar mjaltir. Bara svo það verði enginn misskilningur úr þessu.

Það er oftast einhver munur á framleiðslu brjóstanna enda eru þetta 2 sjálfstæðar einingar alveg ótengdar. Sá munur sem verður á framleiðslunni er oftast til kominn vegna einhvers sem móðirin gerir vitandi eða óafvitandi. Hún hvetur annað brjóstið til meiri framleiðslu en hitt. Stundum gerist þetta á fyrstu dögunum eftir fæðingu og þá er erfiðara að breyta því seinna því ákveðnir viðtakar eru orðnir óstarfhæfir. En það er líka algengt að konum þyki þægilegra að leggja á annað brjóstið (eða mjólka) einhverra hluta vegna og þá smám saman eykur það framleiðslu á kostnað hins. Þetta er alveg hægt að leiðrétta með því bara að leggja oftar á eða mjólka það brjóstið sem er farið að framleiða minna. Það mætti líka örva það til meiri framleiðslu með aukaörvun milli gjafa t.d. með handmjólkun í nokkrar mínútur. Það væri fínt hjá þér að reyna að leiðrétta þetta eins og þú getur því svona mismikil framleiðsla getur leitt til misstórra brjósta.

Að lokum hvet ég þig eindregið til að prófa að leggja barnið þitt á brjóst. Mörg holgóma börn geta verið að einhverju leyti á brjósti. Þau finna sér stundum leið til að geta sogið brjóst ágætlega. Það allavega gefur þeim mikið að fá að liggja upp við mömmu og fá svona mjúkt og hlýtt upp í munninn. Prófaðu bara, þú ert nú einu sinni Víkingsmamma.

Með baráttukveðum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. september 2006.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.