Minni mjólk?

17.08.2006

Sæl og takk fyrir alveg frábæran vef. Veit ekki hvar ég væri án hans.
Málið er að ég er með einn 5 vikna prins sem er eingöngu á brjósti. Mér
finnst allt í einu eins og að mjólkin hafi minnkað. Brjóstin eru ekki lengur yfirfull og það lekur ekki úr þeim. Þetta er mitt 3ja barn og mig minnir að þetta ástand með lekann úr brjóstunum hafi varað lengur. Einnig finnst mér eins og hann pissi ekki eins rosalega mikið en pissar samt ágætlega. Hann sefur jafn vel og drekkur c.a. 10 gjafir á sólahring. Stundum er hann pirraður þegar fer að líða á gjöfina, hann virðist gleypa svolítið loft þannig að hann engist alveg sundur og saman í lok gjafar, prumpar mikið en vill ekki hætta að drekka. Þetta byrjaði fyrir ca. tveimur vikum. Þetta kemur ekki fyrir í hverri gjöf og hann hefur þyngst mjög vel. Væri hann ekki vælandi og svæfi verr ef hann væri ekki að fá nóg ?  Nú á ég ekki að fara með hann í vigtun fyrr en í næstu viku og er því að velta þessu fyrir mér.
Ein áhyggjufull


Sæl og blessuð "ein áhyggjufull",
Þú þarft ekki að hafa svona miklar áhyggjur. Það er nú sjálfsagt komið að næstu vigtun hjá þér en það sem sem þú ert að lýsa hljómar alveg eðlilegt.
Við 3ja barn er eðlilegt að aðlögun brjóstanna gangi fyrr fyrir sig og þar með hættirðu að finna þenslu og leka fyrr. Það þýðir aldrei að mjólkin hafi minnkað, frekar að hún hafi aukist en brjóstin hagi því þannig að þú finnir sem minnst fyrir því.
Við pirringi í lok gjafar getur stundum gagnast að færa barnið í meiri upprétta stöðu og við loftganginum hjálpar að láta barnið ropa snemma í gjöfinni.
Jú, ég held að það færi sko ekki fram hjá þér ef hann fengi ekki nóg, og næstu hús myndu sjálfsagt heyra það líka. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af vigtinni hjá þetta gömlu, hraustu barni sem drekkur nógu oft og sefur sæmilega. Hún getur alltaf farið svolítið upp og niður en ekkert til að hafa áhyggjur af nema barnið sé veikt.
Vona að þú slakir betur á við þetta.

Katrín Edda Magnúsdóttir, l
jósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
17.08.2006.