Spurt og svarað

08. ágúst 2004

Minnkandi brjóstamjólk

Heil og sæl.

Ég á 14 vikna dreng sem ég er með á brjósti ég hef haft næga mjólk handa honum (stóðu oft bunurnar út í loftið þegar hann fór af brjóstinu og lak úr þeim þess á milli) en fyrir svona tveimur dögum þá finnst mér eins og mjólkin sé að minnka ég hef verið að prufa að mjólka mig eftir að ég hef gefið honum og aðeins á milli gjafa en það hefur komið sáralítið (ætlaði að fara að safna til þess að eiga í frysti). Áður þá fann ég oft fyrir svona mjólkurstingum þá t.d í því brjósti sem hann var ekki að drekka úr en síðustu daga hef ég fundið sáralítið fyrir svona stingum. Ég legg hann mjög oft á brjóstið stundum líður bara klukkutími á milli gjafa. Getur verið að ég sé að leggja hann of oft á brjóst og hvað get ég gert til þess að ná mjólkinni upp aftur. Ég hef verið að drekka pilsner og fennel te sem á að vera mjólkuraukandi eru til einhverjar aðrar góðar lausnir því ég get ekki hugsað mér að hætta með hann á brjósti eða fara að gefa honum ábót.

Síðan langar mig að spyrja hvernig er mjólkurframleiðslu ferlið? Hvað eru þau lengi að fyllast aftur eftir að hann hefur klárar úr þeim.  Þá er ég að spá í því hvort að ég sé að leggja hann of ört á þannig að framleiðslan nái ekki að endurnýjast. Ég hef aðeins lesið mér til um þetta og veit að lögmálið varðandi framboð og eftirspurn gildir í þessum efnum en er ekki hægt að ofgera brjóstunum?

Með fyrirfram þökk.

.....................................................................

Sæl og blessuð.

Eftir 3ja mánaða brjóstagjöf fer stjórn hennar meira að heyra undir barnið. Það þýðir að framleiðsla mjólkur fer ekki í gang nema barnið sé að sjúga á sinn eðlilega hátt. Þá er eðlilegt að öll óstjórn, ef svo má kalla, hverfi. Allur leki ætti t.d. að hætta. Brjóstin bregðast ekki eins hratt við handmjólkun, pumpun eða mjaltavél og konur geta lent í mesta basli við að ná úr sér mjólkinni. Það kemur þó smám saman með áframhaldandi puði. Flestar konur hætta að finna losunarviðbragð eða stingi. Sumum finnst jafnvel brjóstin rýrna. Þetta þýðir þó ekki minnkun mjólkur. Þvert á móti er mjólkurmagn á þessum tíma að aukast lítillega í takt við aukna þörf barnsins og yfirleitt eru börnin orðin tæknilega fær í að ná mjólkinni bæði fljótt og vel. Það er svolítið eins og líkaminn sé að segja móðurinni „Jæja, nú kemur þetta ekki þér við lengur, nú er það barnið sem stjórnar!“.

Mæður verða að sætta sig við að þetta sé orðinn krani sem aðeins barnið geti skrúfað frá og flestar gera það með glöðu geði. Flestum finnst þetta dýrðartími brjóstagjafarinnar þegar maður finnur ekki fyrir neinu og brjóstagjöfin er „eins og að drekka vatn“.
Og talandi um að drekka vatn þá eru þessir drykkir sem þú nefnir jafngóðir og hverjir aðrir. Aðalatriðið er að þú drekkir samkvæmt þorsta, hvorki meira né minna.

Að lokum varðandi mjólkurframleiðsluferlið þá finnst mér aldrei lögð næg áhersla á að brjóst eru ekki ílát. Brjóst eru framleiðslueiningar þar sem framleiðslugetan er í hámarki á meðan barnið drekkur. Þegar barnið hættir að drekka heldur framleiðslan áfram í nokkrar mínútur þannig að safngeymarnir fyllast og mjólkurgangarnir alveg upp. Þetta getur tekið í mesta lagi 20-40 mín. Síðan hefst bara bið eftir barninu. Það bætast við 1 og 1 dropi en rýmið er í raun ekki mikið. Ef langur tími líður fer vökvi að síast út úr göngunum og mynda þrota í vefnum. Þann þrota finna konur og kalla „full“ brjóst. Það merkir þó frekar að of langur tími er liðinn frá gjöf. Þú ert því í mjög góðum fasa og ert að gera nákvæmlega það sem náttúran ætlaðist til af þér og nei þú getur ekki ofgert brjóstunum.

Alúðarkveðjur, Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi.
Yfirfarið í júní 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.