Minnkandi mjólk, er með fjögurra mánaða dreng

05.11.2006

Sælar!

Ég er með einn fjögurra vikna dreng á brjósti og hefur það gengið vel hingað til. Fyrir u.þ.b. viku þá var hann með mikinn vindspenning og óvær og vildi einungis vera á brjóstinu. Ég reyndi að hafa alla vega 90 mínútur á milli gjafa en það gekk ekki alltaf. Þetta gekk svona í 3 daga og fékk ég mjög litla hvíld og gleymdi einnig að drekka og borða nóg. Nú er hann kominn á minifom dropa og virka þeir mjög vel. En nú virðist sem mjólkin sé að detta alveg niður þrátt fyrir að ég sé farin að geta hvílst vel. Ég er farinn að gefa honum bæði brjóstin í hverri gjöf en áður dugði eitt. Mér var ráðlegt að gefa honum ábót til að hann fengi nóg. Ég hef verið að drekka malt og mjólkuraukandi te, einnig verið að bera á mig Weleda olíu sem á að bæta rennslið. Hann drekkur á u.þ.b. 3 tíma fresti og þarf ég sífellt að gefa honum ábót þar sem brjóstin virðast ekki ná að fyllast almennilega á ný. Þetta er farið að hrjá mig mikið þar sem ég vil hafa hann á brjósti allavega til 6 mánaða aldurs.

Hvað get ég gert til að auka mjólkina aftur?


Sælar!

Þú ert að gera allt rétt með því að reyna að auka mjólkina. Það gæti líka spilað inn í dæmið vaxtarkippir sem öll börn taka á ákveðnum tímabilum, talað er um á u.þ.b. 6 vikna fresti. Þá vilja börnin sjúga með stuttu millibili oft í 2 til 3 daga, og móðirin fær tilfinningu um að það sé lítil sem engin mjólk. Ég vil ráðleggja þér að minnka ábótina, það fer eftir því hversu oft hann fær hana en byrja á því að sleppa henni í annað hvert skipti og láta hann frekar sjúka oftar og lengur í einu. Yfirleitt eykst mjólkin við það í brjóstunum. Gott er að drekka heitt te eða heita mjólk áður og þegar þú er að gefa honum því hitinn auðveldar oft flæðið.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. nóvember 2006.