Spurt og svarað

07. maí 2007

Minnkandi mjólk?

Sæl,
Ég er með 7 vikna stelpu sem er eingöngu á brjósti. Brjóstagjöfin hefur hingað til gengið vel. Hún hefur reyndar alltaf verið frekar róleg á brjóstinu. Núna síðustu 2-3 daga hefur verið eins og hún sé ekki að fá nóg. Ég hef verið að gefa henni nánast samfellt, þ.e. fært hana frá öðru brjóstinu yfir á hitt fram og til baka. Hún reynir að drekka en verður svo mjög pirruð og grætur mikið. Ég sé að það kemur einhver mjólk í brjóstin ef einhver tími fær að líða á milli gjafa, en virðist ekki vera nóg til að gera hana sadda.
Hún var fædd 3310 gr og er núna 7 vikna 4450 gr.
Ég hef aðeins verið að byrja að hreyfa mig, en bara mjög rólega.  Eina ráðið sem ég hef er að setja hana bara mjög oft á brjóstið en hversu langarn tíma tekur það að auka framleiðsluna? Mælið þið með mjólkuraukandi tei?

Von um skjót svör. Kærar þakkir.Sæl og blessuð,
Það tekur yfirleitt nokkra daga að auka mjólkurframleiðsluna, stundum tvo til þrjá daga og stundum aðeins lengur. Mér finnst líkleg að stelpan þín sé í vaxtarkipp - börnin taka vaxtarkipp á ca 6 vikna fresti og þá þurfa þau að drekka mjög oft í nokkra daga. Mjólkuraukandi te hefur reynst vel og að barnið fá að sjúga brjóstin oft og einnig er gott að móðirin drekki vel af vökva og hvíli sig á meðan að mjólkin er að aukast.
Gangi þér vel, með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
7.apríl 2007. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.