Spurt og svarað

26. maí 2006

Minnkar hárlos þegar brjóstagjöf er hætt?

Ég á tíu mánaða gamla dóttur sem er enn á brjósti. Ég er að reyna að venja hana af brjósti núna en hún vill vera lengur. Ég er að reyna að venja hana af brjósti vegna þess að ég er búin að vera með svo mikið hárlos og svo er ég að fara að gifta mig og vil helst að hún sé hætt á brjósti þá. Þetta er búið að vera mjög erfitt fyrir okkur mæðgur. Hún tekur nefnilega ekki pela og er mikill klaufi við að drekka úr glasi og stútkönnu. Mig langaði að fá að vita hvort að hárlosið muni minnka ef ég hætti með hana á brjósti?Sæl og blessuð.

Svarið við spurningu þinni er stutt og laggott. Nei, hárlosið minnkar ekki þótt þú hættir með hana á brjósti. Það fer að minnka fljótlega vegna þess að ákveðinn tími er liðinn frá fæðingu. Það breytir engu hvort þú ert mjólkandi eða ekki.

Það er auðvitað alfarið þín ákvörðun hvenær þú hættir með barnið þitt á brjósti. Það eru sum börn sem eru ekki sérlega lagin við að drekka á nýjan hátt og það þarf að gefa þeim meiri tíma. Prófa fleiri aðferðir. Sum börn eru betri með mjó rör eða skeiðar. Svo þurfa þau kannski ekki eins mikinn vökva og maður heldur. Þau fá fullt af vökva úr grautum og mauki að maður tali nú ekki um það sem þau innbyrða í baði. Aðalatriðið er að þið séuð báðar sáttar við stöðu mála.

Gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.