Minnkar mjólk þegar pumpað er

19.09.2010
Sælar og takk fyrir frábæran vef!
Ég á einn 4 vikna prins og frá byrjun hefur brjóstagjöfin verið tóm vandræði. Hann náði aldrei að taka brjóstið rétt, ég var orðin helaum og komin með sár og á endanum stíflaðist allt og ég fékk bullandi hita og gat ekki með nokkru móti gefið honum (mexicanahatturinn hjálpaði mér reyndar mjög mikið en mér finnst villandi hvað ljósmæðurnar sem ég talaði við hafa misjafnar skoðanir á honum). Um daginn ákvað ég að prófa að handpumpa mig og sjá hvort það gengi betur. Fyrsta daginn kom heill hellingur á milli 100-150 ml. í hvert skipti en annan daginn kom lítið sem ekkert. Ég var þá heillengi að reyna að kreista út 50 ml. Og þar sem strákurinn fæddist tæpar 18 merkur þarf hann mikið að drekka og nú er ég orðin hrædd um að framleiða ekki nóg handa honum. Minnkar mjólkin þegar maður notar svona handpumpu? Ég gef honum brjóstið á nóttunni en pela á daginn. Ég er búin að lesa eitthvað um mjólkurörvandi te. Hvað heitir það? Og er eitthvað sem ég get gert til að auka mjólkina því hann þarf svo mikið?Þætti mjög vænt um að fá smá hjálp.

 
Sæl og blessuð!
Ég myndi frekar mæla með að brjóstagjöfin sjálf væri löguð frekar en að fara út í pumpun en það er auðvitað þitt val. Þetta hljómar sem þú hafir næga mjólkurframleiðslu fyrir barnið svo það er um að gera að halda áfram. Það er alltaf ívið erfiðara að halda uppi mjólkurframleiðslu með pumpunni einni saman en það er þó vel hægt með nokkurri vinnu. Þú þarft að hafa góða pumpu sem virkar vel fyrir þig. Síðan byggist framleiðslan aðallega á fjölda skipta sem þú ferð í pumpuna og auðvitað magni sem þú mjólkar. Því oftar sem þú ferð þeim mun meira framleiðist. Til að byrja með gæturðu þurft að pumpa 7-10 sinnum á sólarhring og þá alltaf bæði brjóst. Tíminn sem þú þarft að vera í pumpunni gæti verið 10-30 mín. í hvert sinn en það fer eftir því hvað kemur. Þegar farið er að draga verulega úr flæðinu er hætt. Öll aukaörvun með því að láta barnið sjúga skilar meiri framleiðslu. Mjólkurörvandi te eru til undir mörgum nöfnum. Það er best að spyrja afgreiðslufólkið í búðunum eða apótekunum.
Með bestu kveðjum!
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. september 2010.