Spurt og svarað

20. desember 2007

Misheppnuðbrjóstagjöf - undirbúningur fyrir næstu

Sælar.

Mig langaði að biðja um ráðleggingar. Ég á eitt barn sem er 2 ára. Meðgangan gekk vel og ég fór í planaðan keisara en fór samt af stað sjálf kvöldið áður. Ég fékk hann í fangið eftir keisarann og hann var kominn til mín á vöknun og á brjóst innan við klukkutíma frá fæðingu. Allt gekk mjög vel og hann var mjög duglegur að sjúga en á þriðja degi fór að koma í ljós að hann var greinilega ekki að fá mikið. Við byrjuðum að gefa ábót (í sprautu og staupi, aldrei pela) og ég hélt áfram að setja hann á brjóst. Raunin varð sú að mjólkin kom aldrei hjá mér, fékk aldrei þessa tilfinningu sem konur tala um þegar mjólkin kemur, enga stálma og þess háttar. Ég reyndií tvær vikur með góðri hjálp frá heima-hjúkkunni og brjóstaráðgjafa, notaði hjálparbrjóst og fingurgjöf, tók mjólkuraukandi töflur og lagði hann oft á. Eftir rúmar tvær vikur ákváðum við að þetta væri komið gott og hann fékk fyrsta pelann sinn. Þetta fannst mér erfið ákvörðun en auðvitað var ég sátt við að hafa reynt það sem ég gat til að hafa barnið á brjósti. Það var nefnt við mig að sumar konur mjólkuðu ekki, það kæmu alltaf upp svoleiðis tilvik. Núna er ég ófrísk aftur og langar að reyna aftur við brjóstagjöf, en er samt vonandi betur undir það búin ef ekki gengur vel. Þegar ég fer yfir ferlið dettur mér tvennt í hug sem hefði mátt fara betur, í fyrsta lagi leið stundum langur tími á milli gjafa fyrsta hálfa sólarhringinn þar sem hann var vær og góður og svaf mikið. Veit samt að það hefur ekki úrslitaáhrif. Einnig hefði ég viljað prófa að mjólka mig með rafmagnspumpu, var bara með handpumpu sem náði aldrei neinu.

Fyrirspurn mín er sem sagt sú hvort ég geti gert eitthvað til að undirbúa mig fyrir næsta skipti og hvort þið getið gefið mér einhver ráð til að fara eftir fyrstu dagana?

Kveðja,verðandi 2ja barna móðir.


Sælar!

Já, það getur verið mismunandi á milli barna hjá sömu móðurinni hvernig brjóstagjöf gengur. Ég tek undir með þér þegar þú segir að þú viljir reyna aftur brjóstagjöf. Í ljósi fyrri reynslu finnst mér upplagt að þú prófir rafmagnspumpu á bæði brjóstin í einu á u.þ.b 3ja klst fresti yfir daginn og hvíld á nóttunni - með því að barnið sjúgi brjóstin fyrst og pumpa svo á eftir eða - etv við aðra hvora gjöf (pumpað í ca 10 mín í senn). Einnig að leggja barnið eins oft á bjóst og hægt er þegar barnið sýnir áhuga, mjólkuraukandi töflurnar hafa oft reynst vel. Rannsóknir hafa sýnt að ein helsta ástæða fyrir því af hverju mæður hætta með börn sín á brjósti er meðal annars að barnið sýgur ekki nógu vel og kröftuglega geirvörtuna (lint sog) og einnig er til að kirtlarnir í brjóstinu eru ekki nógu þroskaðir til að framleiða mjólk - en við vitum það ekki nema láta reyna á brjóstagjöfina. Endilega reyna öll ráðin sem við þekkjum og sjá svo hvað gerist - það er einnig gott að hafa í huga það að reyna að slaka vel á - við slökun þá ná mjólkuraukandi hormónin að flæða vel. Þetta er það helsta sem mér dettur í hug í bili - gangi þér vel og gleðilegahátið.

Það er líka gott að fá aðstoð hjá brjóstagjafaráðgjafa fyrstu dagana svona til stuðnings.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. desember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.