Spurt og svarað

16. mars 2005

Misjafnlega mikil mjólk í brjóstunum

Sælar og takk fyrir mjög góðan vef!

Ég er með 2ja mánaða dreng á brjósti og er í smá vandræðum með hve mismikil mjólk er í brjóstunum. Annað er mun stærra en hitt og virðist aldrei klárast úr því. Hitt er með mun minni mjólk og ef ég legg á það þá enda ég á að leggja svo á hitt til að barnið fái nóg. Ef ég hins vegar legg fyrst á stærra brjóstið þá nær strákurinn ekki að klára það. Hvernig á ég að haga mér í brjóstagjöfinni? Mér finnst þessi stærðarmunur vera að aukast, kannski af því ég legg oftar á stærra brjóstið til að losna við þrota þar.

Vona að þið hafið einhver svör við þessu skrýtna vandamáli, Móðir.

.............................................................................

Sæl og blessuð móðir.

Þetta er nú reyndar ekki svo skrýtið vandamál því þær eru nokkuð margar sem lenda í þessu. Þetta er eitt af þeim vandmálum sem maður skapar sér svolítið sjálfur en á móti kemur að það er ekkert mál að laga það sjálfur.

Eins og þú ert búin að finna út þá ertu að örva annað brjóstið helmingi meira en hitt og fá það til að framleiða helmingi meiri mjólk. Nú þarftu bara að snúa þeirri þróun við.
Segjum að næsta gjöf sé stóra brjóstið. Allt í lagi með það. Þegar barnið er orðið satt þá læturðu brjóstið alveg vera. Passar þig að mjólka ekkert úr því og ef lekur þá stopparðu lekann. Síðan kemur næsta gjöf á eftir. Þá fær barnið litla brjóstið. Þegar það er búið að drekka það vel og lengi þá tekurðu það af og gefur því pásu í 10 mín. Svo leggur þú það aftur á litla brjóstið í 5- 10 mín. Tekur það af. Sérð til í 10 mín. Ef það er ekki ánægt þá fær það 3ju umferðina á litla brjóstinu. Ekkert snert við stóra brjóstinu. Gjöfin þar á eftir er stóra brjóstið. Þegar gjöf lýkur læturðu það alveg vera. Ef það er þan í því þá þarf brjóstið að aðlagast betur og það gerist af sjálfu sér á nokkrum dögum. Næsta gjöf á litla brjóstinu er eins og síðasta gjöf þar. Ekkert snert við því stóra. Svona heldurðu áfram.

Eftir nokkrar gjafir á litla brjóstinu hættir barnið að vilja 3ju umferðina og nokkrum gjöfum þar á eftir (yfirleitt á 2. sólarhring) hættir það að þurfa aðra umferð. Þrotinn í stóra brjóstinu jafnar sig væntanlega á 3-4 dögum. Eftir um viku ættirðu að vera komin með nokkuð jafna framleiðslu beggja megin. Það er ekki víst að stærðarmunurinn jafni sig fyrr en nokkru eftir að brjóstagjöf lýkur endanlega.

Með bestu óskum um jafna og góða brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.