Spurt og svarað

31. mars 2008

Mismunandi brjóst

Sælar kæru brjóstagjafaráðgjafar!

Ég er með tæplega 5 vikna skottu og hefur brjóstagjöfin gengið ágætlega en ég hef þó nokkrar spurningar sem ég er að vonast til að fá svör við. Strax í upphafi fékk ég sár á aðra geirvörtuna sem hefur nú loksins gróið, það var alveg að hverfa þegar ég lagði stelpuna vitlaust á og sárið opnaðist aftur - en nú er þetta sem sagt í lagi. Vegna þessa hlífði ég þessari geirvörtu kannski helst til mikið, ég reyndi þó alltaf að gefa jafnt úr báðum brjóstum en það gekk upp og ofan og oft endaði með því að hún fékk það sem ég kalla „góða brjóstið“ ansi oft - kannski vegna þess að hún varð oft pirruð þegar ég reyndi „vonda brjóstið“.Ég er með mjög kröftugt losunarviðbragð og á „vonda brjóstinu“ virðist stelpan ekki ráða við það, nema þá nývöknuð. Þetta var í góðu lagi en fyrir tveimur vikum breyttist þetta og henni fór að svelgjast mikið á og gleypa loft sem fer illa í hana og núna grætur hún ef ég legg hana á „vonda brjóstið“ glaðvakandi. Mér gengur hins vegar mjög vel að gefa henni úr „góða brjóstinu“ hvenær sem er. Hún vill oft sofna á brjóstinu og endar því oft með því að hún hangir á „góða brjóstinu“ t.d. á kvöldin þegar ég vil reyna að taka eia langa gjöf.

Stelpan er mjög fljót að drekka, 10-15 mínútur yfirleitt, og því hef ég vanist á að gefa henni bara annað brjóstið í hverri gjöf. Hún vill ekki meira eftir að hafa svolgrað mjólkina í sig á þetta stuttum tíma en svo er hún oft orðin svöng aftur þegar hún er orðin þreytt.Aðferðin sem ég beiti í dag er því að leggja hana alltaf fyrst á „vonda brjóstið“ þegar hún vaknar og gefa henni svo „góða brjóstið“ áður en hún sofnar aftur, kannski 1-2 tímum seinna. Þetta á við á daginn en á nóttunni gef ég henni bara annað brjóstið í einu - hún vaknar tvisvar til að drekka. „Vonda brjóstið“ gef ég yfirleitt liggjandi þar sem henni gengur betur að drekka þannig, svelgist ekki eins mikið á og gleypir þar af leiðandi minna loft. Ég hef reynt að klípa brjóstið saman til að minnka flæðið eins og talað er um hér á vefnum en mér finnst það ekki ganga nógu vel, það er eins og losunarviðbragðið komi margoft í gjöf og því þarf ég í raun að halda nánast allan tímann því ég geri mér ekki grein fyrir hvenær viðbragðið hefst. Og mér var orðið hálf illt í brjóstinu.Þegar ég gef henni „góða brjóstið“ byrjar alltaf að leka úr „vonda brjóstinu“ aftur og aftur á meðan á gjöfinni stendur en það lekur aldrei úr „góða brjóstinu“ þegar hún drekkur úr „vonda brjóstinu“, að minnsta kosti ekki lengur.Ég tek fram að stelpan hafði fjögurra vikna þyngst um tæpt kíló frá fæðingu - sem mér skilst að sé gott.

Og hér koma spurningarnar:

  • Er þessi aðferð ekki bara í lagi hjá okkur? Nokkuð sem ég ætti að breyta til að mjólkin haldist í „vonda brjóstinu“ - mér finnst eins og gjafirnar séu alltaf styttri á því brjósti - að minnsta kosti á kvöldin? Minn helsti ótti meðan að sárið var að gróa var að „vonda brjóstið“ myndi þurrkast upp en það gerðist nú ekki.- Getur verið að ég sé með svona kröftugt losunarviðbragð bara á öðru brjóstinu eða ræður stelpan bara betur við annað brjóstið?
  • Er líklegt að þetta komi til með að vera alltaf svona, engar líkur á að stelpan byrji að ráða betur við þetta seinna meir? Þá sé ég fyrir mér að ég geti bara gefið „góða brjóstið“ þegar ég hef ekki tök á að liggja útaf en vil ekki láta þetta koma í veg fyrir að við förum út að spóka okkur. Væri þá ekki bara allt í góðu ef hún fengi stundum „góða brjóstið“ tvisvar til þrisvar í röð einstaka sinnum?

Kær kveðja, Mamma með mismunandi brjóst!


Sæl og blessuð mamma með mismunandi brjóst.

Það er algengt að brjóst séu mismunandi á þann hátt sem þú ert að lýsa en þetta er í meira lagi. Tæknilega séð er ekki um að ræða kröftugt losunarviðbragð öðru megin. Þú ert sennilega með kröftugt losunarviðbragð. Það er hins vegar meira áberandi öðru megin því þar eru gangar víðari og flæðið þar af leiðandi hraðara. Þú ert þó greinilega búin að vinna vel úr þessu og alveg spurning hvort eigi eitthvað að fara að breyta því. Ég er þeirrar skoðunar að konur séu naskar á að finna þá leið sem hentar þeim og þeirra barni best. Almennt og yfirhöfuð myndi maður ekki mæla með þessari aðferð sem þú notar en í þínu tifelli virðist hún virka vel og það er um að gera að nota það sem virkar. Það má alltaf breyta um aðferð seinna ef aðstæður breytast. Það eina sem ég gæti mælt með að þú prófaðir er að reyna að reigja höfuð barnsins aftur þegar hún er á „vonda brjóstinu“ til að mjólkin renni óhindrað ofan í hana og þú sleppir við að henni svelgist á. Svo gætirðu líka verið duglegri við að stoppa lekann á meðan þú gefur. Það gæti hamið aðeins framleiðsluna og þar með hægt á rennslinu án þess að það verði nokkuð of lítil mjólk fyrir barnið.
Það er eðlilegt að gjafirnar á „vonda brjóstinu“ séu styttri því þar eru gangar víðari og hún fær meiri mjólk á styttri tíma. Það er engin hætta á að brjóstið þorni upp ef barnið er fáanlegt til að sjúga það.

Ég á ekki von á að ástandið verði svona alla brjóstagjöfina þína en nokkrar vikur í viðbót er trúlegt að ástandið verði svipað.

Vona að vel gangi.               


Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. mars 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.