Spurt og svarað

29. október 2006

Mismunandi brjóstamjólk kvenna

Sælar!

Ég er að velta því fyrir mér af hverju konur eru með misfeita brjóstamjólk. Ég á 4. mánaða dóttur sem er eingöngu á brjósti. Hún er fædd 16 merkur og færði sig síðan niður á meðaltalskúrfuna á vaxtalínuritinu.  Hjúkrunarfræðingurinn í ungbarnaverndinni sagði mér að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því og að hún væri að finna sína réttu kúrfu. Ég þekki konu sem átti stelpu á svipuðum tíma og ég og hennar dóttir er orðin miklu þyngri en mín en samt er hún líka eingöngu á brjósti. Þegar ég mjólka mig með handpumpu er mjólkin mín glærhvít á litinn. Ég hef séð aðrar konur sem mjólka gula mjólk. Hvað er það sem veldur því að konur mjólki misfeitri mjólk þótt þær séu með svipað holdarfar? Eru það aðallega erfðir eða er það hvað þær borða sem skiptir máli.

Kær kveðja, Kristín.


Sæl og blessuð Kristín.

Já, það er alltaf svo að það er munur á samsetningu mjólkurinnar frá konu til konu. Það er flókið mál að útskýra af hverju það er, en það hefur ekki með fæðið að gera. Það má treysta því að mjólkin hæfir alltaf barni viðkomandi móður. Það er jafnvel svo að konur mjólka svolítið mismunandi mjólk hverju barni sínu. Þessi munur á mjólk kvenna er í raun mjög lítill. Það sem er miklu mikilvægara er að börn nýta mjólkina sína misvel og melta hana á mismunandi hátt. Það hefur mun meira að segja varðandi mismunandi holdafar barna.  Það getur verið varasamt að bera saman útlit mjólkur. Maður sér ekki efnainnihald með berum augum og litur gefur einungis vísbendingu. Glærhvít mjólk getur verið mun ríkari af efnum nauðsynlegu barninu heldur en gul mjólk. Það er ekkert mál að éta matarlit sem litar út í mjólkina og þar með sést hve lítið liturinn hefur um næringarinnihald að segja. Mjólk er líka síbreytileg. Hún er öðruvísi í upphafi gjafar og enda, hún er líka öðruvísi fyrri hluta dags og seinnihluta o.s.frv.  Með von um að þetta hafi eitthvað skýrt málin.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.