Spurt og svarað

31. mars 2006

Mismunandi ráð um brjóstagjöf

Hæ!

Ég er sennilega með mjög furðulega fyrirspurn en mig langar að vita hvaða munur er á því að láta barn tæma brjóstið alveg og láta það síðan ropa og hins vegar að láta barnið drekka í um það bil 5 til 6 mín og láta það ropa á milli þangað til það er búið að fá nóg? Ég á einn snáða sem er að verða mánaðar gamall og hann er æðislegur nema hvað hann er með smá magakveisu, það sem er hins vegar að pirra mig og mér finnst ég hálfpartinn vera komin í fæðingarþunglyndi er að ef maður þarf einhverjar ráðleggingar þá fær maður svo rosalega mismunandi ráð frá mismunandi manneskjum. Við fórum í brjóstagjafaráðgjöf á LSH og ég er búin að komast að því að ég hefði aldrei átt að gera það, því þar er sagt allt annað heldur en margar aðrar ljósmæður segja. Þetta ástand er búið að gera mig rosalega pirraða og ég geti eiginlega ekki beðið eftir að barnið stækki og þessi fyrsti mánuður verði búinn.


Sæl og blessuð.

Þetta er ekkert furðulegri fyrirspurn hjá þér heldur en einhverjum öðrum. Það eru bara mjög mismunandi þarfir hjá hverri konu um vitneskju. Það er ekki skrýtið þótt þér finnist þú hafa fengið mismunandi ráðleggingar. Brjóstagjöf er mjög breytilegt ferli. Ráð sem eru gefin á fyrstu dögum eftir fæðingu eru öðruvísi en ráð sem gefin eru eftir 1 viku og þau passa kannski alls ekki við ráð sem gefin eru fyrir 3ja vikna barn. Síðan er hvert barn einstaklingur með aðrar þarfir en öll önnur börn og það þarf alltaf að reyna að gefa ráð sem hæfa þessu ákveðna barni og móður þess en eiga kannski alls ekki við næstu konu á eftir þótt hún sé með jafngamalt og jafnstórt barn.

En að þínu vandamáli. Þú talar um barn sem er látið tæma alveg brjóstið. Það fyrirbæri er ekki til, en ég geri ráð fyrir að þú meinir að barnið sé látið drekka sig satt á brjóstinu í einum rykk og síðan látið ropa. Það kerfi gengur vel upp fyrir meirihluta barna. Síðan er hópur barna sem alltaf virðast gleypa meira loft en önnur og vera með meiri læti og gleypugang á brjósti. Þau þurfa yfirleitt að ropa 1 sinni eða oftar í gjöfinni og svo líka eftir gjöfina. Svo eru líka til börn sem ráða illa við mjólkurflæðið í byrjun gjafar. Þau börn eru gjarnan látin ropa mjög snemma í gjöf og svo eftir gjöf. Þannig að þú sérð að bara svona lítið atriðið fer alveg eftir því hvernig barn er um að ræða.

Vona að þetta hjálp eitthvað,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. mars 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.