Spurt og svarað

05. júlí 2005

Missti mjólkina niður eftir skurðaðgerð

Hæ!

Ég fór í skurðaðgerð vegna gallsteina og var látin vera fastandi í 77klukkutíma og ég gat ekki lagt strákinn á brjóst á meðan ég var með drenið í mér því hann ýtti alltaf á slönguna og svo var ég með svo mörg göt a maganum og milli brjóstanna og svona, þannig að ég missti mjólkina alveg en er að ná henni upp. Ég þurfti auðvitað að gefa honum þurrmjólk uppi á sjúkrahúsi og þegar heim var komin meðan að ég mjólkaði ekkert. Ég reyndar lagði hann alltaf á brjóst þótt ég mjólkaði því það er barnið sem á að örva mjólkurframleiðsluna.  En ég er ekki komin en með nægjanlegt mikið magn í brjóstin þannig að ég þarf að gefa honum þurrmjólk ennþá. En málið er það að hann fæst ekki til að drekka bara úr brjóstinu og fá engan pela á eftir. Þá er ég að meina hann er búinn að drekka úr báðum en vil meira. Ég er farin að gefa honum brjóst fulla gjöf þá reyndar tæmir hann bæði brjóstin og svo næst þegar hann drekkur úr pela, en hann vil fá brjóst og svo pela strax eftir.  Hvað á ég að gera?

.....................................................................

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina.

Mig langar að byrja á að hrósa þér fyrir þá vinnu sem þú hefur lagt í brjóstagjöfina og gott að vita að þú vilt leggja enn meira á þig til að láta þetta ganga!  Kroppurinn okkar er ótrúlegur og hefur frábæra hæfileika til að aðlagast og mjólkurframleiðslan er gott dæmi um það.  Eins og sjá má á skrifum þínum ert þú líka með á hreinu hvað þarf til til að auka framleiðsluna - sog barnsins:  Meira sog = meiri mjólk.   Meðan hann fær alltaf þurrmjólk í pela eftir gjöfina þarf hann ekki eins mikið á brjóstinu að halda og þess vegna gengur illa að ná magninu upp.  Ég tel mun vænlegra að hann fái að fara oftar á brjóst og örva framleiðsluna frekar en að fá ábótargjöf í pela, jafnvel þó það kosti gjafir á eins til tveggja tíma fresti í einhvern tíma.  Þetta getur auðvitað kostað slatta af ákveðni og þolinmæði en ég tel að það muni fljótt borga sig, þó væri ekki nema það að þú getir fljótlega hætt þessu pelastússi!  Ég veit að það getur verið erfitt að neita barninu sínu um eitthvað en það er líka hluti af góðu uppeldi að geta sett mörk (t.d. í þessu tilfelli ert það þú sem ræður hvort hann fær pela eða ekki) og þegar maður vill aðeins það besta fyrir barnið sitt getur það stundum kostað að maður þarf að gera eitthvað sem því líkar ekki. 

Það fylgir ekki sögunni hvað drengurinn er gamall eða hversu langt er síðan þú fórst í aðgerðina, það getur auðvitað skipt máli hversu vel þú hefur náð að jafna þig - kroppurinn hefur e.t.v. ekki sömu forsendur til að setja framleiðsluna á fullt þegar hann er enn að jafna sig eftir aðgerð. Kannski hentar ykkur betur að draga smá saman úr pelagjöfinni frekar en að taka þetta með trompi.  Ég vona bara að þú hafir góða aðstoð heima svo þú getir sett alla þína orku í brjóstagjöfina og að láta þér batna - þá eru góðar líkur á að þetta geti gengið upp.

Með baráttukveðjum,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.