Spurt og svarað

16. júlí 2005

Misstór brjóst

Ég er með barn á brjósti og hef oftast gefið henni af vinstra brjóstinu, af því mér finnst það þægilegra. Hún liggur þá með hausinn á handleggnum á mér, ég virðist ekki getað fundið þessa stellingu þegar ég gef af hægra brjóstinu. Þá liggur hún með hausinn í lófanum og það fer ekki eins vel um mig á meðan. En málið er að þar sem ég gef oftast af vinstra brjósti þá er það aðeins stærra en hægra. Spurningin er að þegar ég hætti með barnið á brjósti, lagast þá þessi munur eða verður annað brjóstið alltaf stærra en hitt?

.................................................................................

Sæl og blessuð.

Til að byrja með eða það er að segja áður en þú varðst ófrísk þá voru brjóstin á þér misstór. Það er þannig hjá öllum konum. Langoftast er það hægra brjóstið sem er örlítið stærra en stundum er það vinstra. Þannig að svarið við seinni hluta spurningarinnar er „já“. Annað brjóstið verður alltaf stærra en hitt vegna þess að það var þannig fyrir. Ég veit hins vegar að þú átt við meiri mun. Kannski sjáanlegan mun eða áberandi mun eða rosalegan mun. Nú veit ég ekki. Alltaf þegar konur fara út í það að gefa meira af öðru brjóstinu en hinu (af hvaða ástæðu sem það nú er) er sú hætta fyrir hendi að það brjóstið verði stærra sem gefið er oftar af. Þetta verður þó að vara í einhvern tíma því þetta er hæg breyting.Ég ráðlegg alltaf konum að jafna út gjafirnar milli brjósta því það er hægt í allra flestu tilfellunum. Ég hef þó rekið mig á það gegnum tíðina að flestum þessum kvenna er alveg nákvæmlega sama um þótt brjóst þeirra eru misstór og finnst það bara í góðu lagi. En það er auðvitað misjafnt. Ég get aðeins svarað fyrri hluta spurningarinnar með: Það fer eftir hversu mikill munurinn er. Breytingarnar ganga að hluta til til baka en alls ekki alveg. Ég mæli eins og venjulega með að þú jafnir gjafirnar betur milli brjóstanna annars á ég von á að einhver stærðarmunur verði á milli brjóstanna þegar þau hafa jafnað sig að brjóstagjöf lokinni. Það gæti verið 3-6 mánuðum eftir að síðasta gjöf er gefin.

Með von um að þetta hjálpi.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.