Spurt og svarað

14. ágúst 2004

Misstór brjóst

Góðan daginn.

Ég var að velta því fyrir mér hvort það sé eðlilegt að annað brjóstið stækki miklu meira en hitt? Ég sé bæði mikinn mun og finn fyrir honum. Annað brjóstið hefur og passar enn næstum í lófann minn en hitt er farið að fljóta vel út fyrir og ef ég á að giska þá myndi ég segja að þyngdarmunurinn sé farinn að nálgast 500 gr. og mér finnst það enn halda áfram að stækka en ekki hitt, þó svo ég fái jafn mikla verki í bæði brjóstin og geirurnar. Ég sé líka muninn þar sem stærra brjóstið er farið að sína slit en hitt lítur enn út fyrir að vera sílikon brjóst (er þó ekki með svoleiðis) Er þetta eðlilegt eða eru kannski mjólkurkirtlarnir ekki virkir í þessu brjósti og ef þetta heldur svona áfram fer það ekki þá að verða hættulegt fyrir bakið að vera með meiri þyngd öðru megin?

Sæl og blessuð.

Jú, það getur reyndar verið eðlilegt að annað brjóstið stækki töluvert meira en hitt. Eins og þú kannski veist fer aðal brjóstaþroskinn fram í kynþroskanum. Þá eru allir aðal mjólkurgangarnir komnir á sinn stað svo og kirtilvefurinn sjálfur. Síðan er fyllt upp með fitu. Á meðgöngu er lögð lokahönd á verkið. Þá tútna þessir mjólkurgangar út, lengjast og bæta við sig hliðargreinum. Kirtilvefurinn tútnar út og vefurinn á milli mjólkurganga verður líka meiri um sig. Síðan getur á hvort brjóst bæst töluverð fita. Engin kona er með algjörlega samhverf brjóst og flestar finna mun á brjóstum sínum - þó mismikill sé. Þú virðist vera á þeim enda línunnar þar sem munurinn er í meira lagi. Hvorki kirtilvefur eða mjólkurgangar eru mjög stór um sig þannig að aðalmunurinn er yfirleitt fólginn í mismikilli fitudreifingu. Það kemur ekki niður á mjólkurframleiðslu þar sem hún fer fram í kirtilvefnum. Þú finnur verki jafnt í báðum brjóstum sem fylgja oft þroska kirtilvefs og ganga. Að sjálfsögðu er meiri hætta á sliti á því brjóstinu sem hraðar stækkar vegna álags á húðina.

Ég veit ekki um hættu á bakvandræðum vegna svona. Ekki kannski akkúrat á meðgöngunni því líkaminn er jú að laga breytta líkamsstöðu frá degi til dags eða allt að því. Fitan sem bætist á brjóst á meðgöngu er oftast nýtt sem orkuforði í brjóstagjöf þannig að rétt er að taka ekki stöðuna fyrr en brjóstagjöf er lokið eða nokkrum vikum seinna. Oft er þá munurinn búinn að jafnast út að einhverju leyti.

Óskir um ánægjulega brjóstagjöf, Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi.
Yfirfarið í júní 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.