Spurt og svarað

29. september 2005

Misvirkni brjósta

Komiði sælar!

Ég á von á mínu öðru barni eftir nokkrar vikur og hlakka mikið til að hafa það á brjósti. Var með fyrra barn mitt í 20 mánuði á brjósti og stefni helst í það sama með þetta. Þegar ég var með son minn á brjósti minnkaði framleiðslan í vinstra brjósti eftir 7 mánuði og smám saman fór hann að drekka nánast bara úr því hægra. Ég veit ekki hvernig á þessu stendur, en vil helst að þetta gerist ekki aftur. Vinstra brjóstið var reyndar frá upphafi verra en það hægra, en þó gat ég alveg fram á 7. mánuð gefið úr því. Þetta kom svo sem ekki að sök, því framleiðslan var alltaf næg í hægra brjósti, en mér fannst samt frekar óklæðilegt að vera alltaf með hægra brjóstið stærra en það vinstra.

Nú er ég komin með brodd í brjóstin og finn oft fyrir þrýstingi í þeim (sama þrýstingi og þegar ég var með son minn á brjósti).  En ég tek eftir að þrýstingur er meiri í hægra brjósti auk þess sem mun auðveldara er að kreista smá brodd úr því brjósti. Getur verið að vinstra brjóstið sé verr til brjóstagjafa fallið en það hægra, eða þarf ég bara að vera dugleg að láta litla krílið drekka úr því til að örva það. Hvað ráðleggið þið mér að gera til að koma í veg fyrir þessa misvirkni brjósta núna?

Kveðja, Vala.

...................................................................................................................

Sæl og blessuð Vala og til hamingju með ástandið.

Það er alltaf einhver munur á milli brjósta. Ekki endilega þannig að annað sé verr til brjóstagjafa fallið heldur smá munur á gangakerfi og það sem skiptir venjulega meira máli smámunur á lögun varta. Þetta er í flestum tilfellum óverulegur munur sem hægt er að vinna á. En stundum vill brjóstagjöfin þróast í þá átt að annað brjóstið verður uppáhalds. Stundum er ástæðan þessi óverulegi munur en oftar eru það önnur atriði eins og mikil einhentni þ.e.a.s. margir geta næstum bara notað aðra höndina við sum verk og finnst mjög óþægilegt að skipta um hönd, eða að vinsæll gjafastaður býður upp á að betra sé að hafa barnið alltaf sömu megin. Það eru fleiri atriði í þessum dúr sem geta skipt máli. Hvert og eitt barn skiptir líka máli. Sum börn taka mjög ákveðið annað brjóstið fram yfir hitt og eins og með brjóstin getur verið um örlítil atriði að ræða eins og smá verkur í öðrum hluta andlits í einhvern tíma eða eitthvað spennandi sem þau sjá betur í einni gjafastöðu frekar annarri. Það sem síðan gerist mjög fljótt er að brjóstið sem oftar er lagt á eða barnið drekkur betur úr bregst við með betri og fljótari framleiðslu á meðan hitt brjóstið dregst aftur úr.

Eftir að brjóstagjöf lýkur fara brjóst í gegnum afvenjunarkerfi sem að koma þeim næstum á sama stað aftur. Þegar svo næsta þungun verður og undirbúningur brjósta byrjar aftur er eðlilegt að það séu meiri viðbrögð í því brjósti sem var meira í notkun síðast. Það þýðir ekki að það sé í betra standi til að mjólka en það gæti orðið pínulítið fyrr af stað sérstaklega ef stutt er frá síðustu brjóstagjöf.
Þú þarft að gæta þess vel að falla ekki í sömu gryfjuna og síðast og hættan er mest í byrjun. Þú verður í raun að leggja meiri áherslu á brjóstagjöf þeim megin sem varð útundan síðast án þess þó að gleyma hinu. Nú færðu væntanlega barn sem sýgur allt öðruvísi en fyrra barnið. Það getur vel verið að það finni engan mun milli brjóstanna og þetta vandamál komi ekki einu sinni upp á yfirborðið hjá því en til að vinna gegn vandamálinu ráðlegg ég þér að leggja oftar og lengur á minna brjóstið á fyrstu dögunum. Svo geturðu svolítið séð til hvernig mál þróast.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. september 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.