Spurt og svarað

07. febrúar 2012

Misvísandi svör um næturgjafir

Komið sælar!

Ég er þriggja drengja móðir og hef ég lesið vef ykkar mikið og oft leitað eftir ráðleggingum. Í gegnum tíðina hef ég stundum rekið mig á misræmi í svörum ykkar en ekkert til að gera athugasemd út af en núna fannst mér ég verða að hafa samband við ykkur og benda ykkur á þennan galla í vefnum ykkar.

Ég leitaði mér s.s. ráðleggingar varðandi næturgjafir og skoðaði 7 svör frá ykkur þar sem óöruggar mæður báðu um ráðleggingar varðandi næturgjafir barna sinna. Ég geri mér grein fyrir því að margar ljósmæður koma að vefnum og því geta svörin verið eitthvað mismunandi en mér fannst hreinlega of mikið að lesa sex algjörlega gjörólík svör varðandi næturgjafir barna.
Ein ljósmóðir svaraði því á þann háttinn að móðirinn mætti ekki hætta næturgjöfum fyrr en barnið væri orðið 2ja til 3ja ára gamalt, önnur segir að það sé einfaldlega ekki hægt að hætta næturgjöfum eingöngu, ein önnur segir að móðirin geti hætt næturgjöfum um 6 mánaða aldur, ein önnur ljósmóðirin svarar því að móðirin eigi alls ekki að reyna að hætta næturgjöfum heldur sinna barninu af alúð í hvert sinn sem barnið vaknar og leyfa því sjálfu að stjórna því hvenær barnið hættir að drekka á nóttunni.

Sjálf er ég nokkuð örugg með mitt barnauppeldi og hef töluverða reynslu þar sem ég á þrjú börn en margar mæður eru óöruggar og leita til ykkar til að fá ráðleggingar og það er vægast sagt villandi að lesa svör ykkar þegar engin ykkar ráðleggur það sama. Ég geri mér líka grein fyrir því að skoðun ykkar á hinum ýmsu málefnum tengdum meðgöngu, fæðingu og umönnun ungbarna þarf alls ekki að vera eins en mér finnst þó mikilvægt að þið samræmið svör ykkar að einhverju leiti svo að þær mæður, feður og aðrir uppalendur geti lagt eitthvað traust í svör ykkar.

Þetta er einfaldlega vinsamleg ábending til ykkar og ítreka ég það að mér finnst heimasíða ykkar afar nytsamleg og mikið þarfaþing en þetta ósamræmi í svörum er eitthvað sem mér finnst þið þurfa að skoða mjög vel.

Kær kveðja B.

Sæl og blessuð og takk fyrir bréfið!

Það er vissulega svo að svörin geta verið mismunandi og ósköp eðlilegt að þau geti virkað ruglandi á óörugga foreldra. Það er líka rétt að það eru mismunandi einstaklingar sem svara bréfunum og það er hluti af skýringunni. En aðalmunurinn felst þó í mismunandi börnum. Við erum alltaf að eiga við mismunandi einstaklinga. Yfirleitt er reynt að lesa úr hverju bréfi stöðu hverrar fjölskyldu og reynt að meta þarfir hennar svo langt sem það er hægt. Og þarfirnar geta verið mjög mismunandi eftir aldri barns og aðstæðum foreldra. Skoðanir brjóstagjafaráðgjafans eiga ekki að skipta máli og heldur ekki reynsla af eigin börnum, börnum í fjölskyldu eða vinahópi. Ráðin eiga að byggja á því sem best er vita um viðkomandi vandamál.

Varðandi næturgjafir þá eru þarfir barns fyrst eftir fæðinguna nokkuð einfaldar. Þau hafa „vanist“ því að fá næringu sína jafnt og þétt gegnum naflastrenginn en þurfa nú að aðlagast því að fá næringuna í slumpum með mislöngum hléum á milli. Þetta gengur yfirleitt ágætlega fyrir sig. Frá sjónarhóli barnanna er þetta einfalt. Líkaminn lætur vita þegar næringar er þörf og þá gefur það frá sér svengdarmerki eða merki um að vilja sjúga. Þeim er auðvitað alveg sama hve langt er síðan það nærðist síðast eða hvort það er dagur eða nótt. Allar rannsóknir sýna að það er heppilegast að svara þessum merkjum barnsins því þá nærast þau best. Vandamálin hefjast yfirleitt þegar foreldrar af einhverjum ástæðum finna hjá sér þörf til að reyna að breyta þessu kerfi. Mest knýjandi finnst foreldrum að barn sofi yfir nóttina því þau vilja sjálf sofa á næturna. Og ekki bara þau heldur ætlast mest allt þjóðfélagið til þess að flestir sofi á næturna. Börn taka því auðvitað misvel að láta breyta svona matartímum sínum eins og flestir myndu gera og þá hefst stundum hálfgert stríð. Það er þó svo að flest börn fara sjálf að sofa meira á nóttunni einhvern tíma á fyrstu mánuðunum þegar þau fara að skynja rólegheit næturinnar. Ef fellur úr nauðsynleg næring flytja þau gjarnan gjöf/gjafir yfir á daginn. Þetta gerist á misjöfnum aldri. Foreldrum er yfirleitt ráðlagt að fylgja þessum breytingum barnsins. Það að reyna að þvinga fram svona breytingar áður en barnið er tilbúið getur verið varhugavert ef barnið er ungt eða mjólkurframleiðslan er tæp. Því það er þekkt að framleiðsla mjólkurframleiðandi hormóna er mest á nóttunni og því auðveldast að auka mjólkurframleiðslu með næturgjöfum. Börn nota þetta meira segja sjálf þegar þau fara í vaxtarspretti. Samkvæmt öllu því sem brjóstagjafaráðgjafar læra er ekki talið ráðlegt að raska næturgjöfum brjóstabarna nema um óvenjumikla eða óeðlilega truflun á lífi fjölskyldunnar sé að ræða.

Með von um að þetta skýri málin eitthvað. Og það er rétt að taka fram að aðeins er verið að ræða næturgjafir en ekki næturvökur ungbarna af öðrum orsökum.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. febrúar 2012.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.