Mjólk í brjóstum eftir að brjóstagjöf lýkur

05.11.2014

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég á einn 10 mánaða strák sem var hjá á brjósti þangað til hann var 8 mánaða og gekk bjróstagjöfin mjög vel. Það eru því 2 mánuðir síðan hann hætti á brjósti.Hann hætti bara sjálfur og það gekk vel. Brjóstin virtust hafa tæmst á um viku en svo í morgun kom úr vinstra brjóstinu eins og smá svona formjólk. Það kom eins og 1 dropi og svo aðeins meira þegar ég prufaði að handmjólka. Mig langar að spyrja hvort þetta sé eðlilegt eða einhvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?
Sæl og blessuð!

Þetta er mjög eðlilegt og ekkert sem þú þarft að hafa áhyggjur af. Þú getur orðið vör við mjólkurdropa að koma í nokkra mánuði og upp í eitt ár eftir að brjóstagjöf lýkur. Aðalatriðið er að vera ekki að mjólka út því þá hveturðu brjóstin til framleiðslu á ný. Láta þetta alveg vera og láta líkamann um að ljúka þessu á sinn hátt.

Bestu óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafráðgjafi,
5. nóvember 2014.