Spurt og svarað

11. nóvember 2007

Mjólk og hægðir

Sæl og takk fyrir frábæran vef!

Ég er að velta svolitlu fyrir mér.  Sonur minn er um 4½ mánaðar gamall, er á bara á brjósti og þyngist vel, samkvæmt síðustu skoðun. Um 10 vikna aldurinn hætti hann að hafa hægðir á hverjum degi og kúkaði bara á vikufresti eins og eldri systir hans gerði á sama aldri (hún er 2ja ára núna).  Svo um 3 mánaða aldurinn byrjaði hann aftur að hafa daglegar hægðir og þá voru þær dálítið grænleitur. Hann var alltaf búin að gera í bleyjuna þegar ég skipti á honum en nýlega kúkaði hann svakalega þegar ég var að skipta á honum og hægðirnar hans eru eins og smágerð froða (eins og hárfroða úr brúsum), gulgrænn að lit.  Einhvers staðar hef ég heyrt að ef hægðirnar eru grænar og/eða koma í stórum loftbólum sé barnið ekki að fá nóga fitu úr mjólkinni.

En þá að brjóstagjöfinni. Hann drekkur á a.m.k. 3 tíma fresti yfir daginn og vaknar 1-3 á nóttunni til að fá að drekka. Hann drekkur ákaft í nokkrar mínútur (3-5), eftir það er eins og hann „japli“ bara á brjóstinu. Hann „japlar“ svolítið, horfir á mig og brosir, „japlar“ nokkrar sekúndur, horfir á mig aftur o.s.frv.  Ég leyfi honum að gera þetta í smástund, mislengi þó (fer eftir tíma og aðstæðum) en held samt að þegar hann gerir þetta sé hann orðin saddur en er bara aðeins að treina sér nándina.  Mér finnst nú ekkert sérstaklega þægilegt þegar hann gerir þetta en hann er bara svo ánægður og mikið krútt að mér finnst þetta í lagi.  Öðru hverju tekur hann samt langar gjafir, sérstaklega þegar hann er hálfsofandi á morgnana þegar mikið er í brjóstunum.  Hann hefur ekki fengið nein lyf og ekki ég heldur.  Ég borða mat í hollari kantinum.

Spurningar:

  1. Af hverju eru hægðirnar svona froðukenndar?
  2. Ég hef heyrt að hægðir ungbarna séu grænar út af galli sem berst alla þessa leið gegnum meltingarveginn, er það rétt?
  3. Þýðir það að drengurinn sé ekki að fá næga fitu? Af hverju virðist hann þá ekki vilja meira en raun ber vitni?
  4. Finnst þér þetta eðlilegar hægðir miðað við þetta brjóstagjafamynstur og hvort ætti ég að reyna að troða meiru í hann þegar hann virðist vera búinn að fá nóg?

Með fyrirfram þökkum.


Sæl og blessuð.

Almenna reglan er sú að ef barn er eldra en 6 vikna, eingöngu á brjósti og þyngist eðlilega þá hefur maður engar áhyggjur af hægðunum. Í þínu tilfelli þá er þessi breyting úr hægðum x 1 í viku yfir í hverja bleyju mjög algeng og ekkert til að hafa áhyggjur af. Það getur svo breyst aftur í hina áttina. Hins vegar er útlitið sem þú lýsir þ.e.a.s. grænar og froðukenndar hægðir nokkuð sem stundum sést ef hlutfall formjólkur er hátt. Á fyrstu vikum brjóstagjafar verður það stundum til þess að maður reynir að breyta gjafamynstrinu til hins betra. Hjá svona gömlu barni eins og þínu hefur maður hins vegar ekki áhyggjur. Þú lýsir fyrirmyndar gjafamynstri sem sýnir að barnið er að fá nákvæmlega það sem það þarfnast. Þú veist greinilega að formjólkin kemur fyrst í gjöfinni og þegar svo langt er liðið á brjóstagjöfina rennur hún oft mjög stutt. Kannski 1-2 mín. Það er hins vegar betra að bjóða aftur sama brjóstið en ekki skipta en það vissir þú líka.

Með ósk um gott gengi.     

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.