Mjólkin er lengi að streyma fram

09.10.2005

Mig langaði að spyrja þig að því hvernig get ég fengið barnið mitt til að taka brjóstið alveg aftur en málið er að ég lenti í að þurfa að bæta á það og þá fór það að hætta að nenna að sjúga þar sem ég er svo fastmjólka og það tekur barnið stundum alveg þrjár mínútur að koma mjólkinni fram hjá mér. Get ég eitthvað gert til að mjólkin sé ekki svona lengi fram eða verð ég bara að reyna að þrauka og leggja barnið á brjóstið, eða hvað á ég að gera? Ég á svo erfitt með að hlusta á barnið gráta og gráta af svengd svo ég hef verið að mjólka mig seinnihluta dags því þá er minna í þeim en fyrri hluta dagsins. Það fær brjóstið fyrstu tvær gjafirnar á daginn en svo mjólka ég mig fyrir það en mig langar svo að hafa það á brjósti eða að það drekki sjálft af brjóstinu. Hvað get ég gert til að auka mjólkina og mjólkurflæðið? Búin að reyna te, drekka mikið vatn, drekka malt og hvaðeina og er eiginlega orðin uppiskroppa með tilraunir.

Bestu kveðjur, „ég“.

...........................................................................

Sæl og blessuð „ég“.

Brjóstabörn þurfa alltaf að bíða svolítið eftir að mjólkin streymi fram. Það hefur ekkert með fast eða lausmjólka að gera. Það er mislangur tími milli kvenna en gerist yfirleitt á fyrstu 3 mínútunum. Hvert barn aðlagast tíma sinnar móður. Ef barn hefur ekki þolinmæði til að bíða eftir losunarviðbragðinu er það annaðhvort vegna þess að það er beðið of lengi með að bjóða því brjóstið eða að það hefur verið vanið á snöggt flæði í byrjun t.d. með pela. Sum börn hafa litla biðlund. Þau verða að fara á brjóst um leið og þau vakna. Það má ekki skipta á þeim og alls ekki bíða þar til þau fara að gráta.  Ef barnið hefur verið vanið á snöggt flæði með pela þarf að venja það af pelanum eða ef hann er nauðsynlegt hjálpartæki til að byrja með þá verður að nota túttu með 1 gati og hægu flæði.   Ég skil ekki alveg af hverju þú ert að mjólka þig seinnihluta dags en líkast til geturðu sleppt því. Og passaðu þig á að drekka ekki meira en þorstinn segir til um. Ef þú pínir í þig vökva sem þú hefur ekki lyst á geturðu verið að vinna á móti þér.

Með bestu óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. október 2005.